„Þú veist að þetta er grín“

Einar Pálmi Sigmundsson, fyrrverandi forstöðumaður eigin viðskipta Kaupþings.
Einar Pálmi Sigmundsson, fyrrverandi forstöðumaður eigin viðskipta Kaupþings.

Saksóknari í stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings og ákærðu í málinu leggja talsvert mismunandi skilning í það sem fram kemur í símtölum sem spiluð eru í réttarsal við aðalmeðferð málsins. Saksóknari hefur í nokkur skipti lagt fram símtöl sem ákærðu segja dagljóst að séu grín og glens þeirra á milli og vara við að þau séu misskilin á þann hátt að þar sé verið að ýja að einhverju öðru.

Einar Pálmi Sigmundsson, fv. forstöðumaður eigin viðskipta bankans og einn ákærðu í málinu, hefur verið yfirheyrður í dag og í gær, en hann hefur ítrekað sagt saksóknara misskilja umræður í símtölunum. Náði það hámarki fyrir hádegi í dag þegar orðaskipti milli hans og saksóknara voru orðin nokkuð harkaleg og Einar sagði „Þú veist að þetta er grín.“ Dómari skipaði saksóknara í framhaldinu að fara í næstu spurningu.

Í símtalinu var talsvert um hlátur milli Einars og Péturs Kristins Guðmarssonar, annars ákærða í málinu, þar sem þeir töluðu um að „slá Kaupþing upp í dag“ og að „fá þá upp áður en það fer aftur niður.“

Saksóknari hefur áður sagt að öllu gamni fylgi einhver alvara þegar slík símtöl hafa verið spiluð, en Einari virtist nóg um í þetta skiptið og taldi símtalið ekki eiga heima sem gagn í málinu enda væri svo augljóslega um grín að ræða.

Sagði hann að ef um alvöru hefði verið að ræða hefði það komið fram í viðskiptum þeirra stuttu seinna, en svo hefði ekki verið. Því ætti þetta sér enga stoð nema sem grín milli tveggja aðila og ætti því ekki heima fyrir dómnum. Dómari virtist sammála því og farið var í næstu spurningu.

Björn Þorvaldsson saksóknari ásamt aðstoðarfólki. Kaupþing
Björn Þorvaldsson saksóknari ásamt aðstoðarfólki. Kaupþing
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert