Tveir vondir kostir Kaupþings

Einar Pálmi Sigmundsson, fyrrverandi forstöðumaður eigin viðskipta Kaupþings hafði eftir …
Einar Pálmi Sigmundsson, fyrrverandi forstöðumaður eigin viðskipta Kaupþings hafði eftir Ingólfi að Kaupþing ætti tvo vonda kosti.

Kaupþing stóð snemma árs 2008 frammi fyrir tveimur vondum kostum. Annars vegar að láta félagið „sunka“ eða „reyna að halda genginu sæmilegu.“ Þetta hafði fv. forstöðumaður eigin viðskipta bankans eftir fv. forstjóra hans, Ingólfi Helgasyni, í símtali sem spilað var í réttarhöldunum í stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings í dag.

Pínu hættuleg leið

Einar Pálmi Sigmundsson, forstöðumaður eigin viðskipta, ræddi þar við annan starfsmann deildarinnar sem einnig er ákærður í málinu, Birni Sæ Björnsson. Sagði hann að það að halda genginu „sæmilegu“ væri pínu hættuleg leið, en að hún gæti komið í veg fyrir spíral áhrif, þar sem félagið gæti „sunkað,“ eða fallið mjög hratt niður.

Nefndi hann jafnframt að ef fyrirtækið myndi lækka kæmu matsfyrirtækin væntanlega einnig með lækkanir á lánshæfismat bankans.

Citi bank reyndi stöðugt að keyra gengið niður

Einar Pálmi tengdi þessa umræðu við áhyggjur manna við upphaf ársins 2008 að einhverjir erlendir aðilar ætluðu að „taka íslenska bankakerfið niður.“  Sagði hann að Citi bank hefði þarna reynt að keyra gengi bankans stöðugt niður og farið inn á gjaldeyrismarkaðinn og brotið allar siðareglur þar. Sagði hann að ástæður þess gætu hafa verið stórar stöður í skuldatryggingaálagi, en að allavega hafi verið ljóst að þetta væri árás á bankann.

Þetta telur Einar Pálmi vera meðal ástæðna fyrir því að Kaupþing hélt uppi deild eigin viðskipta sem keypti og seldi bréf í sjálfum bankanum í stórum stíl. Sagði hann öfluga viðskiptavakt vera áhættusama, en að yfirmenn bankans hafi tekið þessa ákvörðun. „Hefði ekki valið þessa leið sjálfur, en yfirstjórnin valdi hana,“ sagði Einar Pálmi.

Var verið að koma í veg fyrir að bréfin myndu "sunka"

Saksóknari greip þessi ummæli á lofti og sagði að þarna væri bankinn sem útgefandi bréfanna að koma inn og bjarga eigin bréfum þegar illa áraði. „Annað hvort sunka þau og fara í spíral niður eða halda genginu sæmilegu. Var verið að koma í veg fyrir slíkt?“ spurði hann Einar Pálma.

Svaraði Einar Pálmi því til að hann gæti ekki svarað fyrir slíkt, það væri yfirstjórnar bankans að gera. „Ég framkvæmdi þetta bara,“ sagði hann. Seinna í yfirheyrslunni tók Einar Pálmi þó fram að hann hefði aldrei framkvæmt neitt hjá bankanum sem hann teldi vera ólöglegt.

Eðlilegt hlutverk eigin viðskipta?

Í yfirheyrslum síðustu daga hefur saksóknari ítrekað komið að þessum hluta málsins og spurt hvort vitni telji þá tvo hatta sem eigin viðskipti voru með hafi verið eðlilegt hlutverk. Hafa ákærðu hingað til sagt svo vera og að hlutverk þeirra hafi aðallega verið óformleg viðskiptavakt sem hafi aukið seljanleika með að minnka sveiflur, en saksóknari reynt að benda á atriði sem hann telji óeðlileg afskipti sem annað hvort komi í veg fyrir lækkun bréfa eða ýti genginu upp, umfram gang markaðarins.

Ingólfur Helgason, fv. forstjóri Kaupþings á Íslandi. Yfirheyrslur yfir honum …
Ingólfur Helgason, fv. forstjóri Kaupþings á Íslandi. Yfirheyrslur yfir honum hefjast á morgun.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert