„Ég er stolt af því“

Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Rósa Braga

„Ég er ein af þeim sem ber ábyrgð á þeirri framkvæmd. Ég er stolt af því. Ég sat í þeim stýrihópi sem tók ákvörðun um það með hvaða hætti yrði farið í þessa höfn. Verkinu er ekki lokið. Það var tvíþætt. Annars vegar að smíða höfnina og hins vegar skip sem ætti við. Núverandi Herjólfur er ekki ætlaður fyrir þessa höfn. Það hefur legið fyrir frá upphafi. Við þurfum að klára verkið og að því er unnið í innanríkisráðuneytinu.“

Þetta sagði Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í dag um málefni Landeyjahafnar en ummælin komi í kjölfar þess að samflokksmaður hennar Ásmundur Friðriksson gerði málið að umtalsefni sínu og velti fyrir sér hver bæri ábyrgð á því að höfnin hafi verið lokuð í sex mánuði „með ómældum óþægingum fyrir Eyjamenn og stórskaðað ferðaþjónustuna og atvinnulífið í Eyjum.“

Ásmundur sagðist hafa beint því til innanríkisráðherra að gerð yrði óháð úttekt á því hvernig forsendur fyrir Landseyjahafnar hafi staðist. „Hvort líkur séu á að Landeyjahöfn standist væntingar sem til hafnarinnar voru gerðar. Standist hún þær ekki verði gerðar tillögur um lagfæringar á Landeyjahöfn. Skorið verði úr því hvort höfnin verði heilsárshöfn, jafnvel með tilkomu grunnristrari ferju, og að niðurstaðan liggi sem fyrst fyrir.“

Mikilvægt væri að varpa ljósi á framtíð Landeyjahafnar og allt gert til að tryggja og bæta samgöngur við Vestmannaeyjar „og að ábyrgð allra á málinu verði ljós.“ Önnur stór framkvæmd væri einnig í uppnámi, Vaðlaheiðargöng. Ásmundur sagði göngin skipgeng vegna vatnsflaums úr þeim en á hinn bóginn hefði Herjólfur ekki komist í Landeyjahöfn mánuðum saman.

Ásmundur Friðriksson.
Ásmundur Friðriksson. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert