Hvatti til sátta

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.

Í ávarpi sínu við upphaf ársfundar Landspítalans gerði Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, yfirstandandi verkfall starfsfólks við ýmsar deildir spítalans að umræðuefni og hvatti deiluaðila beggja megin borðsins til að ná sáttum hið fyrsta.

„Það er ekki auðvelt að standa hér í dag sem forstjóri þjóðarsjúkrahússins, vitandi það að mikilvægur hluti starfsfólks sjúkrahússins sé í verkfalli, verkfalli sem gengur nærri öllum, ekki síst því frábæra fólki sem telur sig ekki eiga annars úrkosti en að fara þessa leið. Það eru aðstæður sem reyna á og krefjast þess að allir taki höndum saman til að tryggja öryggi sjúklinga með sem bestum hætti,” sagði Páll.  

„Það er viðkvæmt að ræða þessi mál í miðjum verkfallsaðgerðum, - á annan hátt en að segja það að við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja öryggi sjúklinga, sem er stöðugt og flókið verkefni - og ég verð að biðla til beggja samningsaðila að ganga sem fyrst frá samningum, þannig að eitthvað sem líkist eðlilegu ástandi komist sem fyrst á á spítalanum.”

Hver hefði trúað því“

Ræðu sína hóf Páll þó á jákvæðu nóturunum og minntist hann þess að fyrir ári síðan sagði hann á ársfundi spítalans að það væri að duga eða drepast og að Landspítalinn þyrfti að leggja upp í vegferð til að bæta öryggi sjúklinga. „Það er ánægjulegt að standa nú hér, ári síðar og geta sagt að við erum að hefjast handa við byggingu sjúklingahótels á Landspítalalóð og að útboð á lokahönnun meðferðarkjarna hefur verið auglýst.  - Hver hefði trúað því?” sagði forstjórinn. 

Sagði hann þó að þrátt fyrir betra árferði á ýmsum sviðum hefði árið verið krefjandi á öðrum. Minntist hann ebólu-undirbúnings, farómaura og myglu sem herjaði á spítalann auk þess að nefna læknaverkfallið og kæru á hendur starfsmanns spítalans fyrir manndráp af gáleysi.

 „En þetta var líka árið þegar landsmenn slógu skjaldborg um spítalann sem aldrei fyrr, hjóluðu umhverfis landið fyrir C-aðgerðarboga, komu upp geðgjörgæslu, nýju hjartaþræðingartæki, línuhraðli og söfnuðu fyrir aðgerðarþjarki. Þetta var líka árið þegar starfsfólk Landspítala stóðst enn eitt álagsprófið og hélt starfseminni gangandi við erfiðar aðstæður, - og það þrátt fyrir að eftirspurnin eftir þjónustu Landspítalans hafi enn aukist umfram fjárlög.”

Yfirskrift ársfundarins var „Uppbygging í augsýn“ og sagði Páll svo sannarlega vera. Framundan væri mikil vinna við lokahönnun meðferðarkjarna við Hringbraut auk þess sem stefnt væri á að hefja framkvæmdir við sjúklingahótel á lóð Landspítalans í júní.

„Með því að byggja sjúklingahótel og ná bráðastarfsemi spítalans á einn stað með meðferðarkjarna, - rannsóknastarfsemi spítalans á einn stað með rannsóknakjarna - og menntun heilbrigðisstétta á einn stað með húsi heilbrigðisvísindasviðs, - náum við að nútímavæða húsakost og þar með - því það er oft sagt að húsnæðið sé þriðji aðilinn í sambandi heilbrigðisstarfsmanns og sjúklings - þar með að nútímavæða verklag, draga úr sóun og bæta öryggi með svo margvíslegum hætti að mér myndi varla endast dagurinn til að telja það allt upp,” sagði Páll og bætti því við að Landspítalinn leggði þunga áherslu á að fyrirliggjandi áætlanir gangi eftir án frekari tafa.

Vandamál í auknum fjölda eldra fólks

Páll boðaði þó ekki aðeins betri tíð og sagði hann eina áskorun öðrum stærri þegar kæmi að rekstri Landspítalans. Sú lyti að vaxandi hópi fólks sem ekki ætti afturkvæmt í heimahús og ræddi hann aldraða sérstaklega í því samhengi.

Staðreyndin er sú að þjóðfélagið mun aldrei hafa efni á því að nota núverandi módel til að sinna þörfum okkar elstu borgara,” sagði Páll. „Nú þegar er helmingur sjúklinga Landspítala á hverjum tíma eldri en 67 ára og sá hópur mun vaxa. Af einstaklingum eldri en áttatíu ára sem leggjast inn á Landspítala á einn af hverjum 10 ekki afturkvæmt heim til sín heldur þarf að fara á hjúkrunarheimili og fjórðungur af heildarlegudögum þessa hóps á Landspítala er vegna þeirra sem er að bíða.”

Vegna hækkandi öldrunarstigs og aukins kostnaðar sökum hans sagði Páll aðra nálgun nauðsynlega og nefndi þar sérstaklega uppbyggingu heimastuðnings svo folk gæti lifað sjálfstæðu lífi lengur. Hann bætti við að þó yrði einnig að tryggja það að þegar folk þurfi hjúkrunarrými gangi þau vistarskipti sem allra fljótast fyrir sig. „Í dag eru þessi umskipti ekki í lagi.“

Nefndi Páll að margir þurfi að dvelja mun lengur en ástæða sé til á Landspítalanum sökum skorts á hjúkrunarrýmum og að það bitni á öðrum hópum. Nefndi hann sem dæmi að á biðlista fyrir liðskiptaaðgerðir eru nú um 900 manns og þar af rúmlega 600.

„Meginástæða þess að ekkert gengur að draga úr biðlistanum - fyrir utan verkföll- er sú að sífellt þarf að leggja aldraða fjölveika sjúklinga af lyflæknisdeildum í pláss bæklunarskurðdeildarinnar - því það er hvergi annars staðar pláss,” sagði Páll og bætti við að sökum fjölda sjúklinga þurfi reglulega að kalla út fimm auka starfsmenn á hverja vakt og að fyrir vikið hafi bráðamóttakan farið nærri 15 milljónunum fram úr áætlun hvern mánuð ársins fram að þessu.  

„Þarna er um að ræða einstaklinga sem ekki þurfa að vera hjá okkur og sem jafnvel skaðast af því að vera á sjúkrahúsi (...) og sem hægt væri að sinna fyrir meira en fjórum sinnum lægri upphæð utan spítala,” sagði Páll. „Það gengur ekki lengur að Landspítali - og auðvitað sjúklingarnir - sitji uppi með vandann.” 

Halda ótrauð áfram

Þrátt fyrir að hafa dregið upp myrka mynd af stöðu mála sagði forstjórinn að lokum að full ástæða væri til bjartsýni ef haldið væri rétt á spöðunum. Stjórnvöld hafi sýnt að þeim sé alvara með uppbyggingu heilbrigðiskerfisins m.a. með auknum fjárframlögum og markvissum skrefum að nýbyggingum á Hringbrautarlóð. Sagði hann jafnframt ástæðu til bjartsýni vegan þess mannauðs sem Landspítalinn býr að og vegan stuðnings og orku almennings.

„Allir þessir bakhjarlar eru okkur starfsfólki hvatning til að halda ótrauð áfram - hvað sem á dynur.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert