Kynna Sameinuðu þjóðunum sína sýn

Nemendur við Salaskóla munu kynna fastafulltrúum Íslands í New York …
Nemendur við Salaskóla munu kynna fastafulltrúum Íslands í New York sýn sína á ný markmið Sameinuðu þjóðanna.

Fólk allsstaðar í heiminum þarf að huga meira að þeim gríðarlega ójöfnuði sem á sér stað í heiminum og við á Íslandi eigum að hugsa um hvað við getum gert til að minnka hann. Þetta er meðal þess sem fram kemur í sýn nemenda í Salaskóla á markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem kynnt var í dag.

Fæddust þegar síðustu markmið voru samþykkt

Markmiðin eru 17 talsins og var skipt niður á milli þriggja manna hópa. Meðal markmiðanna er að draga úr ójöfnuði, en auk þess eru aukið fæðuöryggi, sjálfbær landbúnaður og það að stuðla að heilbrigðum lífsháttum meðal markmiða sem nemendurnir voru látnir vinna verkefni um.

Verkefnið er samstarfsverkefni utanríkisráðuneytisins, landsnefndar UN Women á Íslandi, landsnefndar Unicef á Íslandi, Sameinuðu þjóðanna og Salaskóla. Voru tveir bekkir 15 ára ungmenna valdir til að koma með sína sýn á markmið næstu 15 ára og verður niðurstaða vinnunnar svo nýtt af fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á lokastigum viðræðna í New York.

Berglind Sigmundsdóttir, forstöðumaður hjá félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, segir að það sé vilji til þess að nýta sjónarmið yngri hópa og að 15 ára ungmenni hafi verið valin sérstaklega þar sem þau fæddust árið 2000, þegar síðustu markmið, svokölluð þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna, voru samþykkt.

Nú er horft til allra landa

Segir hún að helsti munurinn á þúsaldarmarkmiðunum og því sem nú sé unnið að sé að þúsaldarmarkmiðin hafi helst tekið mið af þróunarríkjum, meðan nýju markmiðin nái til alls heimsins. Þannig sé sjálfbær þróun eitthvað sem Ísland, alveg eins og Senegal, þurfi að huga að.

„Þó að þetta sé ekki að gerast hér er þetta að gerast núna“

Signý Ósk Sigurðardóttir er meðal þeirra nemenda sem hefur síðustu þrjár vikur unnið að verkefninu. Í samtali við mbl.is segir hún að vinnan hafi opnað augu hennar fyrir þeim mikla ójöfnuði sem væri í heiminum. Þannig hefðu þau komist að því að 85 einstaklingar ættu meiri auð en 50% af íbúum jarðarinnar. Sagði hún nauðsynlegt fyrir fólk sem byggi vel, eins og á Íslandi, að huga vel að þeim sem minna megi sín.

Segir hún hugmyndir hópsins meðal annars miða að því að ríkari lönd gefi meira til þeirra sem fátækari séu. Þannig þurfi til dæmis að koma upp vatnsbrunnum víða þar sem aðgangur að drykkjarvatni sé takmarkaður.

Það er hræðilegt að sjá myndir eða lesa um börn annarsstaðar sem hafa það ekki gott, segir Signý. „Þó að þetta sé ekki að gerast hér er þetta að gerast núna,“ segir hún um mikla fátækt og bágborin kjör stórra hópa víðsvegar um heiminn.

Gói og Friðrik Dór

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, ávarpaði samkomuna í dag og hlýddi á kynningar nemenda, en Signý segir að nemendur hafi meðal annars fengið þjóðþekkta aðila eins og Góa til að syngja fyrir sig í einni kynningunni. Þá hafi hennar hópur útbúið stuttmynd til að kynna ójöfnuð. Poppstjarnan Friðrik Dór Jónsson var þá fenginn til að stýra viðburðinum og kynna atriðin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert