Aðeins einn sé viðstaddur fæðingu

AFP

Ljósmæður og læknar fæðingarvaktar mælast til þess að eingöngu einn einstaklingur sé viðstaddur fæðingu móðurinni til stuðnings til að trufla ekki það viðkvæma ferli sem fæðingin er,“ segir í fréttatilkynningu frá kvenna- og barnasviði Landspítalans í kjölfar nýrra tilmæla um heimsóknir til sængur- og fæðingarkvenna sem taka gildi í dag.

Tilmælin byggja á stefnu um heimsóknir og viðveru við fæðingar sem mótuð var þegar fæðingarþjónustunni á spítalanum var breytt árið 2014. Í þeirri stefnumótun voru fagleg sjónarmið í hvívetna höfð að leiðarljósi.

„Aðstandendur hafa eðlilega ríka þörf fyrir að koma í heimsókn og foreldrar að sýna nýja barnið sitt. Með breyttum heimsóknartilmælum vakir fyrir ljósmæðrum og læknum kvennadeilda að vernda viðkvæmt ferli tengslamyndunar og gæta sem best að heilsu móður og barns fyrstu klukkustundirnar eftir fæðingu. Hagsmunir fjölskyldunnar eru því hafðir í fyrirrúmi.“

Í tilkynningunni kemur fram að heimsóknir á fæðingarvakt til fæðandi kvenna og fyrstu tímana eftir fæðingu séu ekki æskilegar. Fæðingin og tíminn fyrst eftir fæðingu sé mikilvægur fyrir tengslamyndun foreldra og nýbura. Þá sé grunnurinn að brjóstagjöf lagður á fyrstu tímunum eftir fæðingu og mikilvægt sé að móðir og barn fái frið og tíma til að leggja þann mikilvæga grunn. Konur dvelja á fæðingarvaktinni meðan á fæðingu stendur og í um það bil tvær klukkustundir eftir fæðingu. Eftir það flytjast þær á meðgöngu- og sængurlegudeild.

Heimsóknir á meðgöngu- og sængurlegudeild eru eingöngu fyrir nánustu aðstandendur milli kl. 16:00 og 19:30. „Mikilvægt er að sýna tillitssemi, skipuleggja heimsóknir í samráði við foreldra og fresta heimsóknum ef fólk er með kvef eða flensu. Heimsóknir barna yngri en 12 ára hafa ekki verið leyfðar í vetur vegna RS víruss og verður það bann í gildi meðan ný tilfelli koma upp.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert