Æðisleg en óraunveruleg stund

Sunneva með Jomari og fjölskyldu hans.
Sunneva með Jomari og fjölskyldu hans. ljósmynd/Sunneva Ómarsdóttir

Þegar Sunneva Ómasdóttir var 12 ára gömul fékk hún þá flugu í hausinn að vilja styrkja barn úti í heimi sem ætti um sárt að binda. Í síðustu viku, rúmum 8 árum seinna, hitti Sunneva drenginn sem hún hefur styrkt í öll þessi ár í fyrsta sinn. 

„Ég hef alltaf talað um að ég eigi bróður í Filippseyjum en það hefur einhvern veginn aldrei hvarflað að mér að ég gæti hitt hann. Ég var búin að plana að fara til Filippseyja fyrir mörgum mánuðum en það var ekki fyrr en ég var komin þangað að ég fór að hugsa hvort það væri einhver pínulítill séns að ég gæti hitt hann,“ segir Sunneva í samtali við mbl.is.

Hafa fylgst vel með drengnum öll þessi ár

Fyrir 8 árum sannfærði Sunneva foreldra sína um það að fá að styrkja hinn fjögurra ára gamla Jomar C. Raya í gegnum ABC Barnahjálp á Íslandi. „Ég hef alltaf verið þannig að þegar mér  dettur eitthvað í hug þá verð ég að framkvæma það strax og hætti ekki fyrr en mér er búið að takast það,“ segir hún og bætir við að foreldrarnir hafi strax tekið vel í hugmyndina. „Mér fannst líka svo sniðugt að hann héti Jomar því mamma heitir Júlía og pabbi heitir Ómar.“

Fjölskyldan hefur nú styrkt Jomar í öll þessi ár og fengið regluleg bréf frá honum, myndir sem hann hefur teiknað, ljósmyndir af honum og fjölskyldunni, einkunnarblöð úr skólanum og upplýsingar um það hvernig heilsan hans sé. „Það er æðislegt að fá að fylgjast svona vel með honum og að vita nákvæmlega hvert styrkurinn fer,“ segir Sunneva.

Hefði séð eftir því að hafa ekki reynt að hitta hann

Það var svo hinn 20. apríl sl. sem Sunneva og Hermann, kærasti hennar, komu til Filippseyja, en þau eru á þriggja mánaða ferðalagi um Asíu og Bandaríkin. „Mig grunaði ekki að ég gæti möguleika hitt þennan strák, en ákvað samt að prufa að hafa samband því ég er nú á  Filippseyjum, annars myndi ég sjá eftir því að hafa ekki allavega reynt,“ segir Sunneva.

Hún hafði samband við móður sína og bað hana að hringja í ABC Barnahjálp á Íslandi og athuga hvort hún mætti hitta Jomar. „Svo hugsaði ég ekkert meira út í það og fór á ströndina í sólbað“. Móðir hennar sagði henni svo að haft yrði samband við hana í gegnum tölvupóst og í kjölfarið fór allt af stað. „Maður frá samtökunum úti á Filippseyjum sagði við mig að hann ætlaði að reyna að hafa samband við félagsráðgjafa sem gætu farið með mér að hitta Jomar, en sagði að það væri frekar ólíklegt. En nokkrum dögum síðar fékk ég svo póst með þeim gleðifréttum að ég geti hitt Jomar í Manilla.“

Leið eins og hún hefði alltaf þekkt þau

Sunneva segist hafa verið mjög stressuð að hitta Jomar, en hann er núna orðinn 12 ára gamall og gengur yfirburða vel í skólanum. „Við vorum sótt á hótelið okkar af félagsráðgjöfunum og fórum svo öll saman í Molfrid Center, sem er húsnæði samtakanna á Filippseyjum,“ segir hún og heldur áfram. „Eftir stutta stund kom Jomar inn ásamt mömmu sinni og við föðmuðumst öll. Þetta var æðisleg stund en samt svo óraunveruleg.“

Mæðginin kunnu bæði einhverja ensku, en voru mjög feimin að tala hana. Félagsráðgjafarnir voru þó duglegir að þýða fyrir þau að sögn Sunnevu. „Ég hafði keypt dót, föt og mat handa þeim og þau voru ólýsanlega glöð þegar ég færði þeim þetta,“ segir hún. Í kjölfarið fóru þau öll saman heim til fjölskyldu Jomars og spjölluðu þar saman í rúman klukkutíma. „Þau voru rosalega yndisleg og mér leið eins og ég hefði alltaf þekkt þau. Ég hefði alveg verið til í að vera með þeim allan daginn.

„Þarna fékk ég sko tár í augun“

Heima hjá Jomari biðu tvö yngri systkini hans sem eru 7 og 9 ára, og tóku þau mjög vel á móti gestunum að sögn Sunnevu og brostu út í eitt. „Það var búið að skrifa á stórt plakat „Welcome my sponsor Sunneva we love you“ og ljósmynd af fjölskyldunni minni, sem við höfðum sent þeim fyrir nokkrum árum, var límd á plakatið. Þarna fékk ég sko tár í augun,“ rifjar hún upp.

Krakkarnir hlupu út í búð og keyptu litlar kókflöskur til að hafa með kexinu sem Sunneva og Hermann færðu þeim. „Manni leið smá illa að vera að borða þetta því við vissum að þetta væri mikill peningur fyrir þau en það var ekki í boði að afþakka,“ segir hún. Pabbi Jomars var að vinna þennan dag svo hann var ekki viðstaddur. Hann vinnur í prentsmiðju og þénar 750 krónur á dag sem þarf að duga fyrir þessari fimm manna fjölskyldu, og það er ekki einu sinni á hverjum degi sem hann fær að vinna.

Búa í litlu húsi með moldargólfi

Sunneva segist ekki hafa mikið hugsað út í aðstæður á heimilinu þegar hún var stödd þar, því hún var svo ánægð að vera með fjölskyldunni. Hún hafi svo áttað sig á því eftir á hversu slæmar aðstæðurnar voru. „Þegar ég var komin aftur upp á hótelherbergi fór ég að hugsa að núna lægi ég í þægilegu rúmi en Jomar heima hjá sér með ekkert rúm. Þau búa í stóru fátækrahverfi nálægt risa ruslahaugum. Húsið þeirra er pínulítið hlaðið múrsteinum og með moldargólfi. Þau nota börk af kókoshnetum til að elda matinn og sofa öll saman í eins metra háu risi þar sem engar dýnur eru til að liggja á,“ segir hún.

Þá segir hún fjölskylduna eiga túbusjónvarp sem allir á heimilinu elska að horfa á. „Félagsráðgjafarnir sögðu okkur að það skipti ekki máli hversu fátækur þú værir á Filippseyjum, það ættu allir sjónvarp eða væru að safna fyrir einu slíku.“ 

Besti dagurinn í heimsreisunni

Sunneva segir það hafa gefið sér mikið að vita hversu mikið þessi litla upphæð á mánuði breytir í lífi barnanna í fátækrahverfunum. Þá segir hún daginn klárlega þann besta í heimsreisunni. „Það var mjög erfitt að kveðja þau öll og Lorna, mamma hans, hætti ekki að knúsa mig og segjast elska mig. Það var mjög krúttlegt,“ segir hún og útilokar ekki að heimsækja fjölskylduna aftur.

„Ég er svo ánægð að hafa fengið tækifæri til að hitta hann og vona að ég geti gert það aftur í framtíðinni. Ég veit að mamma er mjög öfundsjúk út í mig, svo kannski förum við saman einhvern tímann seinna að hitta Jomar og fjölskyldu hans.“

Jomar og fjölskylda hans búa í fátækrahverfi í Manilla í …
Jomar og fjölskylda hans búa í fátækrahverfi í Manilla í Filippseyjum. ljósmynd/Sunneva Ómarsdóttir
Húsið sem Jomar og fjölskylda hans búa í er um …
Húsið sem Jomar og fjölskylda hans búa í er um 20 fm með moldargólfi og engum gluggum. ljósmynd/Sunneva Ómarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert