Launaþjófnaður nemur milljörðum

Fjöldi háskóla- og menntaskólanema mun á næstunni streyma út á …
Fjöldi háskóla- og menntaskólanema mun á næstunni streyma út á vinnumarkaðinn. Samkvæmt ASÍ er ekki óalgengt að þau séu snuðuð um tugi þúsunda á mánuði með launaþjófnaði. Eggert Jóhannesson

Launaþjófnaður atvinnurekenda á Íslandi getur verið allt að 15% hjá vissum jaðarhópum, eins og ungu fólki og erlendu vinnuafli. Meðal annars er um að ræða launagreiðslur sem eru undir lágmarkstaxta, lágar eða engar álagsgreiðslur, brot á samningum um kaffi- og matarhlé og þegar veikindaréttur er hafður af fólki.

Nokkra milljarða tap

Tap einstaklinga getur numið tugum þúsunda í hverjum mánuði og í heild er um að ræða nokkra milljarða sem stolið er á þennan hátt af launafólki. Þetta segir Halldór Oddsson, lögfræðingur ASÍ, en sambandið hefur verið að bera saman tölur frá Bandaríkjunum við íslenska vinnumarkaðinn og segir að brot hér séu á svipuðu reiki og finna megi þar.

Í skýrslu, sem unnin var af rannsóknarsetrum innan háskólans í Illinois og UCLA háskólans og stofnun um lagalegan rétt vinnandi stétta, kemur fram að mikill meirihluti þeirra rúmlega fjögur þúsund starfsmanna sem skoðaðir voru höfðu orðið fyrir einhverskonar launaþjófnaði. Skýrslan var gefin út 2009, en Halldór segir hana eiga vel við íslenskan raunveruleika í dag. Þó séu ýmis atriði þar sem passi ekki á íslenskum vinnumarkaði meðan önnur sé algengari hér á landi en í Bandaríkjunum.

Áþekk brot hér á landi og í Bandaríkjunum

Algengasta formið var brot á lágmarkslaunum og matarhléum. Þannig hafði um 58% hópsins ekki fengið hlé samkvæmt kjarasamningum og 26% fengu greitt undir lágmarkslaunum.Í heild voru um 44% sem hafði verið brotið á á einhvern hátt tengt launagreiðslum árið á undan.

Halldór segir að hjá ASÍ hafi verið áætlað að þessar tölur og brotin sjálf séu áþekk því sem gerist úti og það hafi þeir meðal annars séð út frá þeim fjölda mála sem kemur inn á borð þeirra eða aðildarfélaga sambandsins.

„Það má auðveldlega heimfæra skýrsluna á Ísland og reyndar flest lönd heims,“ segir Halldór, en hann segir stærstu brotin hér vera tengdar lágum eða engum álagsgreiðslum. „Það eru algengasta form svindlsins,“ segir hann.

Ungt fólk og útlendingar algengustu skotmörkin

Öll svona brot hafa fjárhagslegar afleiðingar að hans sögn og þótt einhverjum kunni að þykja um litlar upphæðir að ræða á hverjum degi safnist þetta saman og nemi milljörðum hér á landi. „Miðað við okkar áætlanir er hægt að heimfæra á íslenskan markað að þetta sé launaþjófnaður sem telur nokkra milljarða á hverju ári,“ segir Halldór og bætir við að oft sé meðal annars verið að hafa kaffitíma af fólki sem það ætti að fá yfirvinnu fyrir. „Það er verið að teygja sig í krónurnar sem þú átt sem launamaður.“

Eins og fyrr segir nær launaþjófnaður aðallega til jaðarhópa, en þar eru ungt fólk og útlendingar stærstu hóparnir. Segir hann að þessir hópar hafi almennt ekki jafn mikla þekkingu á réttindum sínum og þá hamli tungumálið oft fólki að kynna sér málin. Þá vegi reynsluleysi ungs fólks þungt og semji margir t.a.m. um jafnaðarkaup þegar þeir eru aðeins í kvöld- eða helgarvinnu, sem sé skýlaust brot.

Veitingageirinn og ferðaþjónustan algengir launaþjófar

Aðspurður um helstu starfsgreinarnar þar sem launaþjófnaður væri stundaður hér á landi segir Halldór að miðað við mál sem komi á þeirra borð sé veitingageirinn stærstur. Í heild sé reyndar mikið um slíkt í flestum greinum ferðaþjónustunnar þar sem mikið sé um jaðarhópa í starfi.

Nefnir hann að miðað við almenn laun ungs fólks í veitingageiranum geti atvinnurekendur í raun verið að stela um 20 til 30 þúsund á mánuði af fólki með brotum á samningum og réttindum launafólks.

Mikilvægt að kynna ungu fólki réttindi sín

Nú styttist í að skólar klárist og þúsundir ungmenna streymi út á vinnumarkaðinn og segir Halldór að þá sé mikilvægt að vekja athygli á þessu. Ítrekar hann sérstaklega hættuna með jafnaðarkaup, sem sé algengasta form launaþjófnaðar hér á landi. „Þetta er lang oftast uppskrifin að launaþjófnaði og við viljum ekki sjá þetta,“ segir Halldór.

Í ljósi þessa hefur ASÍ útbúið nokkur myndbönd sem ætluð eru ungu fólki og kynnir það fyrir réttindum sínum. Hægt er að sjá myndböndin hér.



Halldór Oddsson, lögfræðingur hjá ASÍ.
Halldór Oddsson, lögfræðingur hjá ASÍ. Mynd/Halldór Oddsson
Halldór segir launaþjófnað geta numið milljörðum hér á landi.
Halldór segir launaþjófnað geta numið milljörðum hér á landi. Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert