Óánægjufylgi til Pírata, ekki öfgaflokka

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Kristinn

Birgitta Jónsdóttir, kapteinn Pírata, segist ekki hafa átt von á auknu fylgi milli kannana, heldur þvert á móti að fylgið færi minnkandi. Segir hún í samtali við mbl.is að niðurstaða nýjasta þjóðarpúls Gallup hafi komið sér mjög á óvart. Mælast Píratar stærsti flokkur landsins með 30% fylgi, meðan Sjálfstæðisflokkurinn er með um 23% og stuðningur við ríkisstjórnina kominn niður í 32%.

Gæti horfið eins fljótt og það kom

Hún segir að með þessum aukna stuðningi fylgi meira álag, en að það sé jákvætt álag. Segir hún að ekki sé hægt að lýsa því andrúmslofti sem nú ríki innan hreyfingarinnar á annan hátt en að það sé „eins og kosningastemming á miðju kjörtímabili.“

„Við tökum þessu með fullkomnu æðruleysi og fylgið gæti horfið eins fljótt og það kom,“ segir Birgitta aðspurð um hvort þau hafi áhyggjur af því að fylgið muni sveiflast mikið á næstunni.

Aukning í grasrótarstarfinu

Segir hún að mikil aukning hafi verið á fólki í grasrótarstarfinu síðustu misserin og það sé mjög jákvætt. „Við nýtum okkur kraftinn frá fólki sem hafði áður ekki spáð í okkur,“ segir hún um þennan mikla áhuga.

Aðspurð um ástæður þessarar miklu fylgisaukningar segir Birgitta að hún telji það stafa af því að Píratar séu fjærst hinu hefðbundna valdi. Þá séu þingmenn flokksins mjög ólíkir sem sé jákvætt þar sem það skapi meiri víðsýni innan flokksins.

Jákvætt að óánægjufylgið komi til Pírata en ekki til öfgaflokka

Birgitta segir þessa þróun ekki ólíka því sem þekkist í öðrum löndum í kringum okkur. „Traustið á hefðbundnum stjórnmálum er að minnka,“ segir hún og bætir við að það sé jákvætt að hér á landi komi óánægjufylgið til flokks eins og Pírata í stað þess að fara til öfgaflokka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert