Þakka Hafnarfjarðarbæ fyrir framtakið

SAFT
SAFT

Ungmennaráð SAFT gagnrýnir þá fordóma og hatursfullu ummæli sem borið hefur á í umræðunni sem átt hefur sér stað í kjölfar ákvörðunar bæjarstjórnar Hafnarfjarðarbæjar að bjóða upp á hinsegin fræðslu í grunnskólum bæjarins. Þetta segir í tilkynningu frá ungmennaráðinu. Þar segir einnig:

„Á sama tíma viljum við þakka bænum fyrir framtakið sem og öðrum sem taka þátt í málefnalegri umræðu.

Í rúmt ár höfum við í SAFT í samstarfi við samstarfsaðila okkar staðið fyrir verkefninu Ekkert hatur – orðum fylgir ábyrgð. Markmið verkefnisins er að vekja athygli á birtingarmyndum og alvarleika hatursorðræðu í samfélaginu og hvetja til jákvæðrar og uppbyggilegrar umræðu þar sem fjölbreytileikinn fær að njóta sín.

Undafarna mánuði hefur Ungmennaráð SAFT farið á milli skóla með mannréttindafræðsluleik þar sem nemendur taka afstöðu til raunverulegra athugasemda af netinu sem einkennast af fordómum og mannfyrirlitningu og eru þátttakendur beðnir um að raða þeim eftir alvarleika. Í gegnum  leikinn má vel sjá að ungmenni eru undir það búin að taka gagnrýnar ákvarðanir og taka afstöðu til samfélagslegra málefna.

Í leiknum var meðal annars hatursfull athugasemd til samkynhneigðra sem bar einungis vott um fordóma en hún kom oft og iðulega ofarlega fram á listum ungmenna yfir skaðlegar athugasemdir sem segir okkur talsvert um hversu opin og gagnrýnin þau eru.

Staðreyndin er sú að alveg eins og kynþáttur, kyn, fötlun og náttúrlegt útlit eru eiginleikar sem fólk velur sér ekki þá er kynhneigð eitt af því. Sama hvort við erum gagnkynhneigð, tvíkynhneigð, samkynhneigð eða líður eins og við höfum fæðst í röngum líkama þá eiga þessir eiginleikar það sameiginlegt að það er ekki í okkar valdi að ákveða hvort við fæðumst með þá eða ekki. Það sem er í okkar valdi er hvernig við tökum á móti einstaklingum og ræðum hlutina. Við höfum val um hvort við fjöllum um hlutina á þröngan og hatursfullan hátt eða hvort við ætlum að ræða þá á uppbyggilegan og opinn hátt.

Viljum við í Ungmennaráði SAFT hvetja alla til jákvæðrar og uppbyggilegrar umræðu um hinsegin málefni eins og önnur málefni. Þetta á ekki að þurfa vera svona mikið tabú árið 2015.

Ást og friður – ekkert hatur!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert