Eldurinn kviknaði aftur

Þórir Tryggvason, hjá Brunavörnum Árnessýslu flaug yfir svæðið sem brann …
Þórir Tryggvason, hjá Brunavörnum Árnessýslu flaug yfir svæðið sem brann í gær. Ljósmynd/Þórir Tryggvason/Brunavarnir Árnessýslu

Sinueldur er aftur kviknaður á svæðinu þar sem 10-12 hektarar lands brunnu við Stokkseyri í gær. Umfangið er ekkert í líkingu við það sem gerðist í gær, segir varðstjóri Brunavarna Árnessýslu.

Lárus Guðmundsson, hjá Brunavörnum Árnessýslu, er á staðnum ásamt 15-20 manna liði. Hann segir að svæðið sé erfitt yfirferðar, mói með votlendi inn á milli, og því sé ekki hægt að komast að eldinum með dælubíla. Aðeins sé hægt að komast þangað með litla dælu.

Frétt mbl.is: Fugl kveikti eldinn

Hins vegar hafi verið gripið til þess ráðs að fá lánaða kajaka hjá Kajakleigunni á Stokkseyri og ferja slökkviliðsmenn yfir lítil vötn sem eru úti um allt á svæðinu til að komast nær eldinum.

Lárus segir að búið sé að hefta útbreiðslu eldsins og nú sé unnið að því að slökkva hann. Hann segir að um lítið svæði sé að ræða og að engin hætta sé á ferðum. 

Hann segir að glóð geti lengi leynst í sinu enda hefur verið mjög þurrt á svæðinu undanfarið.

Talið er að sinueldarnir hafi kviknað í gær er fugl flaug á háspennulínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert