Fleiri fresta heimsóknum til læknis

Atvinnulausir og öryrkjar eru líklegri en aðrir til að fresta …
Atvinnulausir og öryrkjar eru líklegri en aðrir til að fresta heimsóknum til læknis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Frá árinu 2009 til 2012 fjölgaði nokkuð í hópi þeirra sem hættu við eða frestuðu heimsókn til læknis vegna kostnaðar. Ef á heildina er litið höfðu hlutfallslega flestir á Suðurnesjum hætt við eða frestað heimsókn af þessum sökum en fæstir á Austurlandi.

Þetta er meðal fyrstu niðurstaðna úr rannsókn embættis landlæknis á heilsu og heilsutengdri hegðun sem lögð var fyrir 10 þúsund Íslendinga árið 2012. Svarhlutfall var 67%. Svipuð spurningalistakönnun var lögð fyrir árin 2007 og 2009. Rannsókninni er ætlað að nýtast til stefnumótunar og forgangsröðunar verkefna er lúta að heilsu landsmanna. 

Í Talnabrunni, fréttabréfi embættis landlæknis, segir að þrátt fyrir að það sé fremur fátítt að fólk hætti við eða fresti heimsókn til læknis vegna kostnaðar þá leiddi greining á gögnum í ljós að þeim fjölgaði nokkuð sem það gerðu frá árinu 2009 til 2012. Aukningin er í öllum aldurshópum og hjá báðum kynjum. Hlutfall karla sem hættu við eða frestuðu sökum kostnaðar jókst úr 3,7% í 5,8% og hlutfall kvenna jókst úr 5,0% í 8,5%. Yngra fólk frestar frekar heimsóknum vegna fjárhags en eldra fólk.

Atvinnulausir, öryrkjar og þeir sem eru veikir eða tímabundið frá vinnu fresta helst eða hætta við heimsóknir til læknis vegna kostnaðar og fjölgaði þeim hlutfallslega á milli mælinga. Talsvert hærra hlutfall nemenda og heimavinnandi frestaði einnig læknisheimsókn árið 2012 samanborið við 2009. Það fækkaði hins vegar hlutfallslega í hópi atvinnurekenda og fólks í fæðingarorlofi sem frestaði heimsóknum.

Þeim sem hættu við eða frestuðu heimsókn til læknis vegna kostnaðar hefur hlutfallslega fjölgað í öllum heilbrigðisumdæmum á milli þessara tveggja mælinga. Aukningin er þó aðeins marktæk á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi og á landinu í heild. Ef á heildina er litið höfðu hlutfallslega flestir á Suðurnesjum hætt við eða frestað heimsókn af þessum sökum en fæstir á Austurlandi.

Hagstofa Íslands hefur um árabil spurt fólk hvort og af hvaða ástæðum það hefur frestað heimsókn til læknis annars vegar og til tannlæknis hins vegar síðastliðna 12 mánuði. Í þeirri rannsókn hefur m.a. komið í ljós að eftir árið 2008 hefur orðið töluverð aukning á því að fólk fresti heimsóknum til tannlækna, lækna og annarra sérfræðinga.

Talnabrunnur - fréttabréf landlæknis

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert