Mikill sinubruni á Snæfellsnesi

Sinubruni á Snæfellsnesi.
Sinubruni á Snæfellsnesi. mbl.is/Sigurður Bogi

Mikill sinubruni er á sunnanverðu Snæfellsnesi. Að sögn Þórðar Þórðarsonar, varðstjóra hjá lögreglunni á Vesturlandi, er talið að fugl hafi orsakað brunann. Rafmagn sló út á svæði á nesinu, og varð vart við reyk skömmu síðar. Hvorki fólk né verðmæti eru talin í hættu.

„Þetta er við Fáskrúðabakka,“ segir Þórður í samtali við mbl.is. „Sunnan við félagsheimilið Breiðablik, frá þjóðveginum niður að fjöru. Við erum að vona að þetta endi bara í fjörunni ef ekki næst að slökkva í þessu.“ Hann segir í sjálfu sér enga hættu vera á ferðum. Einn sumarbústaður sé á svæðinu og unnið hörðum höndum við að tryggja að hann brenni ekki. Að öðru leyti er útlit fyrir að bruninn verði einfaldlega að fá að klárast.

„Það er verið að reyna að klappa þessu og dæla vatni en það eru erfiðar aðstæður, erfitt að komast að þessu. Við erum hins vegar búnir að stýra þessu þannig að þetta fer niður að sjó ef þetta fer áfram,“ segir Þórður.

„Okkur grunar að það sé fugl sem hafi kveikt í. Rafmagnið sló út og svo stuttu seinna var farið að rjúka úr öllu hérna í sveitinni. Bændurnir eru því líklegast saklausir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert