Mófuglar verpa ekki í húsagörðum

Hrafn þessi veiddi sér líklega lóu til matar að sögn …
Hrafn þessi veiddi sér líklega lóu til matar að sögn Hafsteins Eiðssonar, fuglaáhugamanns frá Keflavík. Ljósmynd/Hafsteinn Eiðsson

Í tíðarfari eins og því sem hefur verið hérlendis í vor er ekki óalgengt að mófuglar; lóan og spóinn, leiti í þéttbýliskjarna í leit að æti. Þeir sækja í fjörur og húsagarða þegar úthaginn er frosinn.

Þetta segir Jóhann Óli Hilmarsson fuglafræðingur en íbúar á sunnanverðu landinu hafa að undanförnu margir hverjir tekið eftir lóunni á ferð á óhefðbundnum stöðum eins og húsa­görðum, fót­bolta­völl­um og kirkju­görðum. Nýlega hafa íbúar einnig orðið varir við spóann á sömu slóðum.

„Í svona kuldum þá er hiti í jörðu í görðunum og frekar að fá maðka þar heldur en úti á víðavangi,“ segir hann og rifjar upp kalda vorið 1979 þegar allt fylltist í þéttbýli af spóum, lóum og hrossagaukum.

Hann segir að það þurfi að fara að hlána fljótlega til þess að fuglarnir geti orpið. Mófuglar velja sér opið mólendi og mýrlendi til varps og eru þeir mjög heimakærir. Jóhann segir að því sé líklegt að flestir fuglarnir bíði eftir því að það hláni, t.d. á norðanverðu landinu, áður en þeir verpi. 

„Þeir helga sér óðal sem má ekki vera of lítið og nota þeir það til þess að ná sér í æti og ala upp ungana,“ segir Jóhann og verpa tegundirnar því ekki í húsagörðum, þó svo að þær haldi þar mikið til þessa stundina. Vissulega verpa fuglarnir í borginni, en í útjaðri hennar, Vatnsmýrinni og Öskjuhlíð.

Jóhann segir aðeins tekið að birta til í fuglalífi hérlendis. Hann sá tvær kríur á Stokkseyri í gær og er búinn að frétta af kríum á Höfn í Hornafirði og á Seyðisfirði.

Endalokin í sveigðum gogg hrafns

„Mér dettur í hug að hann hafi veitt hana sjálfur. Þetta virkaði mjög fersk bráð,“ segir fuglaáhugamaðurinn Hafsteinn Eiðsson frá Keflavík sem kom að hrafni sem hafði tak á lóu í gogg sínum nærri Skessuhelli í Keflavík. 

Hafsteinn segir að mikill fjöldi sé af lóum í bænum. „Kettirnir eru í svaka gír og ég held að lóan fatti þetta ekki sjálf. Hún er ekki hrædd við mann nema hún sjái mann ganga. Ef maður stingur hausnum yfir girðingu er henni alveg sama, í tveggja metra fjarlægð frá manni,“ segir hann.

Spóinn leitar í fjörur og húsagarða þegar úthaginn er frosinn, …
Spóinn leitar í fjörur og húsagarða þegar úthaginn er frosinn, líkt og lóan. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert