„Þetta er allt dautt“

Sinubruni á Snæfellsnesi í gær.
Sinubruni á Snæfellsnesi í gær. mbl.is/Sigurður Bogi

Búið er að slökkva mikinn sinubruna sem kom upp í flóa suður af bænum Fáskrúðarbakka á Snæfellsnesi seinnipartinn í gær. „Þetta er allt dautt,“ segir Bjarni Kristinn Þorsteinsson, slökkviliðsstjóri í Borgarbyggð.

Slökkviliðið fékk útkall vegna brunans um kaffileytið í gær, en seinustu menn fóru af svæðinu um klukkan hálftvö í nótt að sögn Bjarna. Hann segir tugi hektara hafa brunnið, en talið er að sinueldarnir hafi kviknað þegar álft eða gæs flaug á háspennulínu. „Rafmagninu sló út og svo fimm til tíu mínútum seinna var farið að rjúka undan staurastæðinu. Fuglinn hefur sennilega flogið á línuna og það hefur kviknað í honum,“ útskýrir Bjarni.

Engin hætta var á ferðum en einn sumarbústaður er á svæðinu og unnið var hörðum höndum við að tryggja að hann brynni ekki. Um þrjátíu manns tóku í heildina þátt í að slökkva eldinn. 

Svæðið er erfitt yfirferðar, og segir Bjarni það varla fært gangandi mönnum. „Þetta er botnlaus flói og miklir mýrarflákar svo það var ekki hægt að fara með nein tæki þangað. Þetta voru mjög slæmar aðstæður en menn voru með klöppur og svo dældum við vatni,“ segir hann og bætir við að jafnframt hafi slökkviliðið sjálft kveikt eld frá veginum sem brann andspænis sinueldinum svo minni líkur væru á að hann kæmi að óbrunnu landi. 

Nú segir hann þó kulnað í glæðum á svæðinu og ekki sjáist reykjarslæða. „En það eru skelfilegir þurrkar og við vonum bara að það fari að rigna fljótlega,“ segir hann að lokum.

Frétt mbl.is: Mikill sinubruni á Snæfellsnesi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert