Þrívíddarprentað bein grætt í mann

Skurðaðgerð á Landspítalanum.
Skurðaðgerð á Landspítalanum. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Þrívíddarprentað kinnbein verður grætt í andlit sjúklings á Landspítalanum í sumar. Það kemur í stað kinnbeins sem hann missti í kjölfar aðgerðar vegna æxlis í andliti. Um tímamótaaðgerð er að ræða. 

Fjallað var um málið í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins. Þar kom fram að aðgerðin er flókin. Að henni kemur hópur vísindamanna og lækna. Aldrei áður hefur hlutur af þessum tagi verið sérhannaður eftir andliti sjúklings. Prentaða beinið er unnið út frá segulómsmyndum og tölvusneiðmyndum af sjúklingnum. 

Í frétt RÚV kom fram að andlitshlutinn verður úr léttum málmi, títaníum. Hann verður búinn til  á Ítalíu. 

„Í hvert sinn sem einstaklingur lítur í spegil sér hann merki þessarar aðgerðar. Það er náttúrlega hverjum og einum mikils virði að hafa útlit og starfsgetu andlits og háls í lagi. Það er kannnski fyrst og fremst það sem kemur til með að lagast í þessu tilfelli,“ sagði Hannes Petersen, yfirlæknir á háls-, nef- og eyrnalækningadeild LSH, í frétt RÚV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert