28 þúsund vilja þjóðaratkvæði

mbl.is/Helgi Bjarnason

„Þetta er langt fram úr því sem við hefðum nokkurn tímann getað ímyndað okkur að þetta færi og það náttúrulega sýnir okkur að þjóðin áttar sig á mikilvægi málsins. Það er engin spurning,“ segir Bolli Héðinsson hagfræðingur í samtali við mbl.is.

Bolli er einn af aðstandendum undirskriftasöfnunar þar sem skorað er á Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, „að vísa í þjóðaratkvæðagreiðslu hverjum þeim lögum sem Alþingi samþykkir þar sem fiskveiðiauðlindum er ráðstafað til lengri tíma en eins árs á meðan ekkert ákvæði um þjóðareign á auðlindum hefur verið sett í stjórnarskrá og þjóðinni ekki verið tryggt fullt gjald fyrir afnot þeirra,“ líkt og segir á vefsíðu söfnunarinnar. Rúmlega 28.600 nöfn hafa nú verið skráð á síðuna.

Undirskriftasöfnuninni er einkum beint að frumvarpi Sigurðar Inga Jóhannssonar sjávarútvegsráðherra um úthlutun markrílkvóta en hann sagði í samtali við mbl.is í gær að hann velti fyrir sér tilganginum með söfnuninni. Hann hefði skilið hana betur ef verið væri að hlutdeildarsetja makrílinn inn í kvótakerfið með ótímabundinni hlutdeildarsetningu. Þvert á móti væri um tímabundna hlutdeildarsetningu að ræða með verulegu viðbótargjaldi. Sex ár væru ekki lengur tími að hans áliti.

„Þarna er mál sem þjóðin bara finnur að brennur á henni. Með auknum ójöfnuði í samfélaginu og öðru slíku þá brennur þetta meira á þjóðinni en ella. Þjóðin hefur jú greitt atkvæði um það að hún vilji fá ákvæði um þjóðareign í stjórnarskrá og hvers vegna er ekki drifið í því?“ segir Bolli. Spurður hversu lengi undirskriftasöfnuninni verður haldið áfram segir hann að það verði gert eins lengi og þess þurfi. 

„Fram yfir það að þetta verði samþykkt á Alþingi. Ef svo fer. Ríkisstjórnin hefur alla möguleika á að draga þetta til baka. En það er augljóst hvað verið er að fara fram á, að það megi ekki binda neitt í lög sem fer fram yfir eitt ár. Það er náttúrulega grundvallaratriðið í þessu,“ segir Bolli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert