Bjóða fastráðnum starfsmönnum störf við Tækniskólann

Horft yfir Tækniskólann í Reykjavík.
Horft yfir Tækniskólann í Reykjavík. mbl.is/Ómar

Stjórn Tækniskólans hefur ákveðið vegna fyrirhugaðrar sameiningar Tækniskólans og Iðnskólans í Hafnarfirði að bjóða öllum fastráðnum starfsmönnum Iðnskólans í Hafnarfirði störf við Tækniskólann.

Fram kemur í tilkynningu, að starfstengd réttindi haldist óbreytt og flytjist yfir í sameinaðan skóla.

Jafnframt vill stjórn Tækniskólans árétta eftirfarandi:

  • Tækniskólinn mun reka áfram skóla í Hafnarfirði í núverandi húsnæði Iðnskólans í Hafnarfirði og þeim öðrum húsum sem hann hefur til afnota.

  • Með sameiningunni er stefnt að því að byggja enn frekar undir öflugt iðn‐ og starfsnám með fjölbreyttu námsframboði og sterkum einingum.

  • Stefnt er að því að með sameiningunni náist fram hagræðing til lengri tíma sem muni skila sér í bættri þjónustu við nemendur og starfsfólk. Á næstu misserum verði skoðað hvernig námi, námsframboði og rekstri sameinaðs skóla verði best fyrirkomið.

  • Fyrst um sinn verður námsframboð Tækniskólans í Hafnarfirði að mestu óbreytt en síðan verður skoðað í samráði stjórnenda og starfsfólks með hvaða hætti námi verði best fyrirkomið.

„Stjórn Tækniskólans telur, í ljósi fækkunar nemenda í framhaldsskólunum almennt og þar af leiðandi þrengri fjárhags, að þá standi skólarnir betur að vígi sameinaðir til að efla starfs‐ og iðnnám en hvor í sínu lagi eins og verið hefur. Sameinaðir geti skólarnir boðið nemendum sínum breiðara nám með fleiri valkostum og þannig stuðlað að eftirsóttara og öflugra námi,“ segir í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert