Borgin búin að kæra

Um 120 birkitré við Breiðholtsbraut voru klippt af ÍR-ingum.
Um 120 birkitré við Breiðholtsbraut voru klippt af ÍR-ingum. Júlíus Sigurjónsson

Reykjavíkurborg kærði högg á um það bil 120 birkitrjám við Breiðholtsbraut til lögreglunnar í morgun. ÍR-ingar létu höggva trén en þau skyggðu á auglýsingaskilti. Þórólfur Jónsson, garðyrkjustjóri borgarinnar, segir skiltið hafa verið sett upp eftir að trén voru gróðursett.

Formaður aðalstjórnar ÍR, Birkir Þór Sveinsson, sagði við Ríkisútvarpið að trén hafi verið felld til að verja auglýsingatekjur félagsins af skiltinu. Félagið hafi haft samband við borgina sem hafi vísað á Vegagerðina sem hafi gefið leyfi fyrir verknaðinum.

Haft var eftir Vegagerðinni að hún hafi gefið sitt samþykki svo framarlega sem borgin gerði það einnig. Þórólfur segist hins vegar ekki kannast við það að ÍR-ingum hafi verið leiðbeint um eitt eða neitt heldur svarað hreint um að borgin hafnaði erindi þeirra og Vegagerðinni hafi ekkert verið blandað í það.

„Þeir fóru náttúrulega sjálfir og töluðu við Vegagerðina, ekki af því að við höfum vísað þeim þangað. Ég kannast allavegana ekki við það. Það er klárlega ekki vilji borgarinnar að hafa þetta svona,“ segir hann.

Þórólfur bendir jafnframt á að trjágróðurinn hafi þegar verið kominn þegar auglýsingaskiltið var sett upp þó að hann hafi vissulega ekki verið eins hár þá.

„Þeir hefðu mátt sjá þetta fyrir, að setja ekki skiltið þarna á þennan stað,“ segir hann.

Fyrri frétt mbl.is: Kæra trjáklippingar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert