Breyta matseðlum vegna skorts

Kjúklingabú. Myndin er úr safni.
Kjúklingabú. Myndin er úr safni. mbl.is/Kristján Kristjánsson

Kjúklingaskortur vegna verkfalls dýralækna er ekki byrjaður að hafa mikil áhrif á veitingastaði. Dragist verkfallið á langinn eru einhverjir staðir tilbúnir að breyta matseðlum sínum til að bregðast við skorti. Eigandi BK-kjúklings segir ljóst að skortur verði orðinn í næstu viku að óbreyttu.

Slátrun á fiðurfénaði og spendýrum hefur stöðvast vegna verkfalls dýralækna og hefur það leitt til þess að ferskur kjúklingur er meðal annars orðinn ófáanlegur í verslunum Bónusar.

Foodco rekur veitingastaðina American Style, Eldsmiðjuna, Saffran, Aktu taktu, Greifann og Pítuna. Jóhann Þórarinsson, forstjóri fyrirtækisins, segir að birgjar þess hafi gert ráðstafanir þannig að það hafi ekki fundið fyrir skorti á kjúklingi enn sem komið er. Sumir staðirnir séu þó byrjaðir að nota frosinn kjúkling í stað fersks.

Dragist verkfallið á langinn og skortur verði á kjúklingakjöti verði brugðist við því og segir Jóhann að fyrirtækið hafi búið sig undir það. Til greina komi að breyta matseðlum og þá komi til greina að nota innflutt kjöt í samvinnu við birgja.

„Við gerum allt til að geta tekið á móti viðskiptavinum áfram,“ segir Jóhann.

Með sérstakan lager hjá birgi

Vinsælustu réttirnir á veitingastaðnum Vegamótum í miðbæ Reykjavíkur eru kjúklingaréttir, að sögn Óla Más Ólafssonar, eins eigenda staðarins. Verkfallið hafi ekki haft áhrif ennþá en nú sé notaður frosinn kjúklingur í eldhúsinu. Staðurinn er með sérstakan lagar hjá birgi sínum og staðan sé ágæt eins og er.

„Ef þetta dregst á langinn hefur þetta náttúrulega gríðarleg áhrif hjá okkur. Ég held að það eigi eftir að hafa áhrif á marga ef það verður engin framleiðsla á kjúklingi hérna á landinu,“ segir hann. 

Færa sig yfir í „BK-borgarann“

Haraldur Örn Hannesson, eigandi BK-kjúklings við Grensásveg, segir að staðurinn hafi ekki fengið ferskan kjúkling í rúma viku en hann eigi að fá frosið kjöt samkvæmt pöntunum að minnsta kosti út þessa viku.

Framleiðandi hafi boðið að breyta bitunum sem staðurinn fær þannig að meira sé af lærum og leggjum en minna af bringum. Á móti sé hins vegar hægt að halda áfram að sjá fyrir bitum. Framboðið verður hins vegar búið að dragast saman meira í næstu viku. 

„Það verður kominn skortur í næstu viku, það er alveg ljóst. Þó að við getum kannski haldið einhverju ferli í gangi getum við ekki haldið matseðlinum okkar öllum inni í næstu viku. Það verða komin það mikið áhrif þá,“ segir hann.

Haraldur Örn ætlar ekki að deyja ráðalaus heldur hyggst hann bjóða upp á breyttan matseðil.

„Ég er búinn að setja upp og er tilbúinn með matseðil sem er stærri samlokuseðill, með bátabrauði og slíkum réttum þar sem við getum notað lamba- og nautakjöt sem er hægt að fá hverju sinni. Við færumst nær einhverjum brauðskyndibitaréttum tímabundið á meðan þetta er í gangi. Færum þetta yfir í BK-borgarann,“ segir Haraldur Örn sem reynir að sjá björtu hliðarnar á ástandinu.

„Mín skoðun er sú að það þurfi bara að leysa þetta mál. Við getum ekki beðið þangað til í lok mánaðarins og misst 80.000 manns af vinnumarkaði í verkföll. Það segir sig sjálft að þjóðfélagið virkar ekki svoleiðis,“ segir Haraldur Örn.

Fyrri frétt mbl.is: Ekkert ferskt kjöt fyrr en verkfalli lýkur

Vinsælustu réttirnir á Vegamótum er kjúklingaréttir.
Vinsælustu réttirnir á Vegamótum er kjúklingaréttir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert