Evrópustofu hugsanlega lokað

Evrópustofa.
Evrópustofa. Ljósmynd/Evrópustofa

Evrópusambandið hefur engin áform um að bjóða út rekstur Evrópustofu á nýjan leik en núverandi samningur um rekstur hennar rennur út í lok ágúst á þessu ári. Þetta kemur fram í svari frá stækkunardeild sambandsins við fyrirspurn mbl.is.

„Samningur frakvæmdastjórnar Evrópusambandsins um rekstur Evrópustofu rennur út 31. ágúst 2015. Engin áform eru um að bjóða rekstur hennar út að nýju,“ segir Maja Kocijancic, talsmaður Johannesar Hahn stækkunarstjóra sambandsins.

Evrópustofa tók til starfa í upphafi árs 2012 í tengslum við umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið. Rekstur hennar var boðinn út og var í kjölfarið samið við íslenska almannatengslafyrirtækið Athygli og þýska almannatengslafyrirtækið Media Consulta. Athygli sagði sig frá verkefninu á síðasta ári og var í kjölfarið öllum starfsmönnum Evrópustofu sagt upp störfum. Media Consulta hefur síðan séð alfarið um reksturinn.

Samningurinn um rekstur Evrópustofu var til tveggja ára með fjárframlagi upp á allt að 1,4 milljónir evra eða rúmlega 200 milljónir króna. Samkvæmt samningnum var heimilt að framlengja hann til tveggja ára. Það er fram á þetta ár. Verði ákveðið að halda rekstri Evrópustofu áfram þarf því að bjóða verkefnið út á nýjan leik.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert