Fryst kjöt bíður loka verkfalls

Sveinn Vilberg Jónsson, framkvæmdastjóri Matfugls.
Sveinn Vilberg Jónsson, framkvæmdastjóri Matfugls. mbl.is/Árni

Kjöt af kjúklingum sem var slátrað í síðustu viku á undanþágum frá verkfalli dýralækna var fryst og komið fyrir í geymslu. Það verður selt þegar verkfalli lýkur. Að sögn Sveins Jónssonar, framkvæmdastjóra Matfugls, liggur ekki fyrir hvort undanþágur til slátrunar fáist í þessari viku.

Sveinn segir að kjötið verði selt eftir að verkfallið leysist þannig að kjötið fari ekki til spillis. Staðan sé hins vegar afar slæm. Hægt sé að halda hlutunum gangandi í einhvern tíma en ef ekkert verði selt í maímánuði segir Sveinn að útlitið sé ekki bjart.

„Velferð dýra er eitt, þéttleikinn sem verður fljótt á búunum. Svo er næsta áhyggjumál: til að tryggja velferð þeirra þurfum við fóður. Til þess að borga fóður þurfum við tekjur. Þær hafa minnkað verulega síðustu tvær vikur út af þessu. Það er ljóst að það þarf eitthvað að fara gera í þessum málum. Best væri ef menn myndu semja,“ segir hann.

Til stendur að undanþágubeiðnir til að hægt sé að slátra fuglum í þessari viku verði afgreiddar í dag en Sveinn hefur ekkert heyrt af afdrifum þeirra ennþá. Því getur hann ekki sagt til um hvort hægt verði að slátra og frysta kjöt í þessari viku.

„Það var gert samkomulag í síðustu viku sem var fyrir síðustu viku og það er ekki búið að ganga frá neinu fyrir þessa viku þannig að ég veit ekki hvernig það verður,“ segir Sveinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert