Hreiðar mátti ekki veita viðtal

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrum forstjóri Kaupþings, sem nú afplánar fangelsisdóm Kvíabryggju fyrir aðild sína að Al-Thani málinu mátti ekki ræða við fjölmiðla í hádegishléi réttarhalda í stóra markaðsmisnotkunarmálinu í dag. Þegar blaðamaður mbl.is ætlaði að taka við hann viðtal sem hann hafði gefið leyfi fyrir greip fangavörður inn í og sagði að föngum væri ekki leyft að gefa viðtöl, slíkt þyrfti að fara í gegnum fangelsisyfirvöld.

Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunnar, staðfesti þetta og bætti því við að reglan hafi verið sett á sínum tíma til þess að vernda fórnarlömb afbrotamanna með því að koma í veg fyrir að fram kæmu upplýsingar sem gætu skaðað fórnarlömb þeirra.

Fangelsisyfirvöld þyrftu að fara yfir spurningar sem yrðu lagðar fyrir fangana. Hann segir að reglunum verði tæplega breytt vegna málarekstursins en að auðsótt ætti að vera að fá leyfi fyrir viðtölum við sakborningana með því að hafa samband við fangelsisyfirvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert