Hreiðar sakar dómara um skjalafals

Hreiðar Már Sigurðsson.
Hreiðar Már Sigurðsson. mbl.is/Árni Sæberg

Aðkoma Ólafs Barkar Þorvaldssonar, Hæstaréttadómara, að málum Kaupþingsmanna og ákvörðun hans um að dæma Hreiðar Má Sigurðsson, fv. forstjóra Kaupþings, í gæsluvarðhald árið 2010 olli Hreiðari miklu vonbrigðum.

Þegar hann ávarpaði dóminn í morgun í stóra markaðsmisnotkunarmálinu sagði hann að Ólafur hafi í öðrum málum sem tengdust Davíð Oddssyni, fv. seðlabankastjóra og núverandi ritstjóra Morgunblaðsins, lýst sig vanhæfan, en svo hafi ekki verið upp á teningnum í þetta skiptið.

Afskiptin óeðlileg

Hreiðar benti á að það hafi verið Davíð sem hafi kært Hreiðar til lögreglu vegna Al Thani viðskiptanna og í ljósi þess hafi afskipt Ólafs Barkar verið óeðlileg.

Hreiðar fór mikinn í ræðunni og sagði að frá stofnun sérstaks saksóknara hafi hann ekki treyst þeirri stofnun til að gæta hlutleysis, enda sé hún sett á stofn með ákveðið verkefni og reynsla annarra landa af svipuðum málum bendi ekki til þess að réttur sakborninga sé virtur.

„En eftir að löggjafinn hafði ákveðið að setja þúsundir milljóna til að hundelta fyrrum stjórnendur einkabankanna varð ég að leggja allt mitt traust á dómstólana og treysta því að þeir myndu standa í lappirnar,“ sagði Hreiðar.

Hann var í kjölfar gæsluvarðhaldsins dæmdur í farbann, en Hreiðar sagði það óskiljanlegt með öllu, enda hafi héraðsdómur nokkrum vikum áður ekki fallist á slíka beiðni þar sem ekki væri hætta á að Hreiðar myndi flýja land.

Laug til um til að fá farbannið

Sagði Hreiðar að sérstakur saksóknari hafi logið til að fá farbannið, enda hafi eina ástæðan fyrir því verið að geta hlerað síma hans hér á landi, en lúxemborgsk yfirvöld hefðu aldrei samþykkt hleranir með sama hætti og íslenskir dómstólar hafi gert athugasemdalaust.

Hreiðar sagði einnig að rökstuddar grunsemdir hefðu komið fram að rangt hefði verið staðið að útgáfu heimildar til að hlera síma hans 17. maí 2010. Þá hafi átt að sleppa honum úr gæsluvarðhaldi en að menn hafi uppgötvað að hlerunarheimildin væri runnin út.

Komu heim til dómara og fengu heimildina

Að sögn Hreiðars var hringt í Benedikt Bogason, héraðsdómara við Vesturland og hann beðinn um að fá úrskurðinn. Benedikt hafi sagt þeim að koma heim til hans og málið yrði afgreitt. Benedikt hafi svo kvatt með þeim orðum að passa upp á að gögnin kæmu til baka til sín svo hann gæti klárað pappírsvinnuna.

Hreiðar kærði bæði Benedikt og Ólaf Þór Hauksson, sérstakan saksóknara, til ríkissaksóknara, vegna málsins, þar sem þarna væri verið að skálda upp þinghald sem ekki væri haldið. „Hvað getur dómari gert verra en að brjóta lög og sinnt ekki skyldum sínum að kanna hvort grundvöllur sé fyrir málum eða ekki áður en úrskurður er gefinn út?“ sagði Hreiðar.

Dómskjalið sýnir þinghald í héraðsdómi

Hvatti Hreiðar dómara málsins að kynna sér skjal í málinu sem sýndi að Benedikt og Ólafur Þór hafi mætt í dómshúsið og að í þinghaldi hafi Benedikt veitt  heimildina. „Það gengur ekki að uppi sé rökstuddur grunur um skjalafals lögreglu og dómara án þess að hið sanna sé leitt í ljós,“ sagði Hreiðar og bætti við að ríkissaksóknari hafi ekki talið sér fært að rannsaka málið þar sem það væri fyrnt.

Sagði Hreiðar þetta vera eina birtingarmynd þess hvernig ríkiskerfið passi upp á sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert