Píratar mótmæla förgun húsgagna

Húsgönunum sem á að farga hefur verið safnað saman í …
Húsgönunum sem á að farga hefur verið safnað saman í ráðhúsinu í dag. Af vef Pírata

Einhverjir fulltrúar Pírata ætla að taka sér stöðu við húsgögn úr ráðhúsi Reykjavíkur sem stendur til að farga í mótmælaskyni. Húsgögnin eru eftirlíkingar af ítölskum Cassina-húsgögnum. Píratar segja málið skólabókardæmi um hversu illa sé komið fyrir samfélaginu með hugverkaréttarmál. 

Framleiðandi húsgagnanna fór fram á að húsgögnunum, sem hafa verið í ráðhúsinu í rúm tuttugu ár, yrði fargað en í frétt á vef Pírata kemur fram að nú sé verið að safna þeim saman í húsinu fyrir förgun. Það feli í sér að ekki megi nýta efnið úr stólunum í annað.

„Þetta mál er skólabókardæmi um það hversu illa er farið fyrir samfélagi okkar, þar sem hugverkaréttur verður til þess að góðum húsgögnum er hent fremur en að þeim sé komið til góðra nota. Enn fremur hversu harkaleg viðbrögð fulltrúa eigenda hugverkaréttarins eru, en þau verða til þess að ekki má breyta stólunum, gefa þá, endurnýta hráefnið til annarra nota og svo framvegis,“ segir á vefsíðu Pírata.

Því ætla einhverjir Píratar að taka sér stöðu við húsgögnin til að mótmæla förgun þeirra, en afstaða Pírata til hugverka- og höfundaréttar er sú að samfélagið geri skýra kröfu til endurskoðunar slíks réttar. 

Frétt á vef Pírata 

Fyrri frétt mbl.is: Borgin vitað lengi um eftirlíkingarnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert