Skurðdeild enn lokuð vegna sýkingar

Þrífa þarf all­ar stof­urn­ar hátt og lágt til að reyna …
Þrífa þarf all­ar stof­urn­ar hátt og lágt til að reyna að út­rýma sýk­ing­unni. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Ein af þremur skurðdeildum á Landspítalanum við Hringbraut er enn lokuð vegna skæðrar sjúkrahússýkingar sem þar kom upp. Sex til sjö sjúklingar liggja þar inni og komast ekki út fyrr en meðferð þeirra er lokið. Gert er ráð fyrir því að deildin muni ekki opna fyrr en eftir viku.

Tveimur skurðdeildum af þremur var lokað í síðustu viku, samtals 36 rúmum, og öllum aðgerðum nema bráðaaðgerðum frestað. „Staðan núna er hins vegar þannig að önnur deildin er orðin hrein og við erum að opna hana í rólegheitum og færa hana í rekstur, og færa sjúklingana á sína heimadeild,“ segir Lilja Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri skurðlækningasviðs spítalans. „Á hinni deildinni sem er lokuð voru innisjúklingar með jákvæða ræktun sem þurfa að ljúka sinni meðferð þar eða fara í önnur úrræði,“ segir hún og bætir við að um sex til sjö sjúklinga sé að ræða.

Bakt­erí­an sem veld­ur sýk­ing­unni hef­ur myndað ákveðið ónæmi fyr­ir pensillíni og því er erfitt að meðhöndla hana. Mjög ónæmisbældir einstaklingar, til að mynda á gjörgæslu og krabbameinsdeildum spítalans, eru sérstaklega viðkvæmir gagnvart sýkingunni. Hún hefur þó ekki áhrif á aðra, enda er bakterían mikilvægur hluti af eðlilegri örveruflóru ristils.

Markmiðið hér á landi er þó að uppræta sýkingar af þessu tagi. „Við á Íslandi höfum ákveðið að finna bakteríuna í umhverfinu og þá einstaklinga sem eru með hana og reynum að uppræta hana úr umhverfi sjúklinga, til þess að koma í veg fyrir það að ónæmisbældir einstaklingar fái hana í framtíðinni.

Til að losna við bakt­erí­una þarf að byrja á því að rýma deild­ina og ein­angra stof­urn­ar, taka sýni og senda í rækt­un, þrífa allt hátt og lágt og end­ur­taka þar til sýk­ing­in finnst ekki. „Þetta er rosalegt álag á starfsfólk; hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða, ræstingafólk og sýkingavarnadeildina. En þetta er að skila árangri sem er ánægjulegt,“ segir Lilja. „Sýkingavarnadeildin okkar hefur verið að taka sýni á öðrum deildum hér í húsinu og á vinnuherbergjum starfsmanna og það hefur allt sem betur fer komið neikvætt út.

Lilja segir að erfitt sé þó að eiga við sjúkrahúsbakteríur, ekki síst vegna húsnæðiskosts spítalans. Mikill samgangur sé meðal sjúklinga og til að mynda séu heilu gangarnir sem deila salerni.

Haft verður samband við þá sjúklinga sem hafa verið á þessum deildum síðustu mánuði, og þeir kallaðir inn til sýnatöku. Þetta eru alls um 200 manns.

Frétt mbl.is: Skæð iðrasýking á skurðdeild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert