Spennuþrunginn dagur í héraði

Hreiðar Már í héraðsdómi í dag.
Hreiðar Már í héraðsdómi í dag.

Það var eldfimt ástand í héraðsdómi í dag þegar Hreiðar Már Sigurðsson, fv. forstjóri Kaupþings, bar vitni í stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings. Andrúmsloftið varð strax spennuþrungið eftir að Hreiðar hélt þrumuræðu sem ávarp þar sem hann lýsti sig saklausan, en skaut auk þess föstum skotum á dómstóla, ákæruvaldið, fangelsisyfirvöld og ríkið.

Við tók yfirheyrsla þar sem Hreiðar skaut ítrekað á saksóknara fyrir spurningar sínar eða málatilburði. Þá ítrekaði hann þá skoðun að lán til þriðja aðila til að kaupa bréf í Kaupþingi hefðu ekki verið án veða, en saksóknari heldur því fram.

Ákærður báðum megin í málinu

Hreiðar er ákærður bæði á kaup- og söluhlið málsins og hefur saksóknari gefið í skyn að hann hafi haft yfirsýn yfir meinta markaðsmisnotkun og að allt bendi til að hann hafi tekið stórar ákvarðanir í málinu.

Á kauphliðinni er ákært fyrir kaup eigin viðskipta bankans í Kaupþingsbréfum. Hreiðar fékk reglulega senda pósta frá starfsmönnum deildarinnar með upplýsingum um stöðu mála og hafði jafnvel í örfá skipti frumkvæði sjálfur af því að fá upplýsingar þegar Ingólfur Helgason, forstjóri Kaupþings á Íslandi, var í fríi. Var meðal annars sýndur póstur þegar Ingólfur sendi Hreiðari tölvupóst með símanúmerum helstu starfsmanna deildarinnar og annarra sem komu að kaupunum.

Illa gengur að sýna fram á bein fyrirmæli

Hreiðar neitaði þó alfarið að hafa gefið einhver fyrirmæli fyrir kaupum á bréfum og sagði upplýsingapóstana hafa verið „einn af hundrað“ sem hann fékk daglega. Sagðist hann einhvern tímann örugglega hafa rætt stöðu eigin bréfa við Sigurð Einarsson, stjórnarformann bankans, og Ingólf, en að hann myndi ekkert eftir því, enda átta ár liðin frá ákærutímabilinu.

Framburður vitna í málinu, bæði ákærðu og annarra sem ekki eru ákærðir, hefur beint spjótum að Hreiðari þegar kemur að stærri ákvörðunum, en erfitt hefur reynst að sýna fram á bein fyrirmæli. Þannig hefur saksóknari ítrekað vísað í símtöl þar sem einstaklingar sem tengjast málinu tala um að Hreiðar hafi vitað allt eða að þeir hafi rætt við Hreiðar um ákveðin málefni.

„Hvers konar fáránleiki er þetta?“

Söluhliðin á málinu er álík Al Thani-málinu, en þar er ákært fyrir að bankinn hafi lánað þriðju aðilum til að kaupa bréf í Kaupþingi án veða. Bréfin átti bankinn sjálfur eftir að eigin viðskipti höfðu keypt þau. Saksóknari spurði Hreiðar ítrekaði út ákvörðun um sölu bréfanna í dag og sagði Hreiðar frá byrjun að hann hefði ekkert komið nálægt ákvörðun um að selja bréfin og það hefði verið alfarið á höndum eigin viðskipta.

Þegar saksóknari var búinn að spyrja hann svipaðrar spurningar ítrekað um þetta mál brást Hreiðar nokkuð illur við og sagði: „Ég kom ekkert að þeirri ákvörðun að hafa selt þessi bréf. Hvers konar fáránleiki er þetta?“

Mál Stanfords fór aldrei gegnum lánanefndina

Ákært er fyrir sölu og fjármögnun fjögurra aðila, en það eru félögin Desulo, Mata og Holt, auk fjárfestisins Kevin Stanford. Hreiðar hefur í öllum yfirheyrslum játað að hafa komið að viðskiptunum við Stanford, en þar hafi fjársterkur alþjóðlegur fjárfestir viljað kaupa bréf í bankanum. Ákvörðunin fór aftur á móti aldrei gegnum lánanefnd til samþykkis, heldur var bara greitt út og segir Hreiðar að það hafi verið á ábyrgð viðskiptastjóra og að þarna hafi ekki verið fylgt verklagsreglum. Það tengist honum þó ekki beint.

Í málum hinna félaganna segist Hreiðar aftur á móti ekkert hafa komið að ákvörðun eða uppsetningu nema í einstaka skipti þegar hann sat í lánanefnd og samþykkti lán ásamt fleiri einstaklingum í lánanefnd. Sagði hann við dóminn í dag að hann hefði ekkert komið að sölunni til Holt, samt væri hann kærður. Þá væru engin gögn sem tengdu hann við Desulo viðskiptin.

„Átti ég að fara á móti forstjóranum“

Í einu endurritanna sem saksóknari birti er aftur á móti haft eftir Bjarka Diego, fv. framkvæmdastjóra útlána hjá bankanum, sem einnig er ákærður í málinu, að nefndin og lánafólkið hafi verið í skelfilegri stöðu, þar sem búið hafi verið að ganga frá öllum útlánum þegar þau komu fyrir lánanefndina. „Þetta er ömurlega staða,“ sagði hann og bætti við að eftir á að hyggja hefði hann átt að aðhafast eitthvað, en slíkt hefði verið erfitt. „Átti ég að fara á móti forstjóranum og segja að þetta væri ekki hægt, átti ég að stíga í hælana og kvarta?“

Dagurinn í dag var án efa sá eldfimasti í aðalmeðferðinni, en búist er við að hún taki 22 daga og er þetta níundi dagurinn. Bæði var vörn Hreiðars sú beinskeyttasta hingað til og þá var alveg ljóst af svörum hans að köldu andaði milli hans og ákæruvaldsins.

Köldu andaði á milli saksóknara og Hreiðars í dag.
Köldu andaði á milli saksóknara og Hreiðars í dag. Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert