Svínabændur áhyggjufullir

mbl.is/Helgi Bjarnason

Íslenskir svínabændur eru áhyggjufullir yfir þeirri stöðu sem er í kjaradeilu ríkisins og BHM en verkfall hefur nú þegar verulega neikvæð áhrif á velferð þeirra grísa sem eru á íslenskum svínabúum. Svínaræktarfélag Íslands segir að ríkið hafi skyldu til að leita allra leiða til að verkföllum ljúki sem fyrst.

Félagið gagnrýnir harðlega þann seinagang sem hafi verið í yfirstandandi viðræðum ríkisins og BHM.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu. Hún er svohljóðandi:

„Íslenskir svínabændur eru áhyggjufullir yfir þeirri stöðu sem er í kjaradeilu ríkisins og BHM og þeirra áhrifa sem verkfall nokkurra stéttarfélaga innan BHM hefur. Verkfall hefur nú þegar verulega neikvæð áhrif á velferð þeirra grísa sem eru á íslenskum svínabúum.

Svínabændur vilja ekki blanda sér með beinum hætti í þá kjaradeilu sem nú stendur yfir. Engu að síður verður ekki horft framhjá því að þeir hafa dregist inn í hana óumbeðnir.

Vegna verkfalla dýralækna hjá Matvælastofnun hefur ekki verið hægt að slátra grísum frá því að verkfall hófst. Afleiðing þess er sú að nú er orðið mjög þröngt um grísina á búunum og hefur það neikvæð áhrif á velferð þeirra. Með tilliti til dýravelferðarsjónarmiða er nú orðið aðkallandi að hægt sé að færa grísi til slátrunar áður en ástandið versnar. Að sama skapi munu svínabændur verða fyrir miklu fjárhagstjóni verði þeim ekki mögulegt að færa grísi sína til slátrunar og selja afurðir af þeim. Fyrir marga bændur mun þetta tjón verða þeim óbætanlegt og vega þannig að lífsafkomu þeirra og fjölskyldna þeirra. Kjarabarátta snýst um að bæta lífsafkomu fólks og því hlýtur það að vera óásættanlegt að hún kippi fótunum undan lífsafkomu þriðja aðila. 

Í þessu samhengi er mikilvægt að benda á að ríkið hefur ríkum skyldum að gegna gagnvart bændum. Ríkið hefur sett mjög mikilvæga lagaumgjörð utan um íslenskan landbúnað sem ætlað er að tryggja örugg starfsskilyrði, velferð dýra og að afurðir landbúnaðarins uppfylli öll heilbrigðisskilyrði. Bændum ber að starfa samkvæmt þessum lögum og á móti hefur ríkið þá skyldu að tryggja að framkvæmd þeirra sé möguleg. Á meðan verkföll standa yfir hjá dýralæknum hjá Matvælastofnun er ríkið ekki að sinna þessum skyldum sínum og orðið ljóst að það verður að slátra gripum í þessari viku. Þá er velferð dýranna stefnt í hættu ef búin hafa ekki tekjur til að sinna þeim. 

Ríkið hefur skyldu til að leita allra leiða til þess að yfirstandandi verkföllum ljúki sem allra fyrst en Svínaræktarfélag Íslands gagnrýnir harðlega þann seinagang sem hefur verið í yfirstandandi viðræðum ríkisins og BHM.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert