Undirverktakar lögðu niður störf

Tímabundið verkfall stendur nú yfir hjá undirverktökum Alcoa Fjarðaráls
Tímabundið verkfall stendur nú yfir hjá undirverktökum Alcoa Fjarðaráls mbl.is/Sigurður Bogi

Tímabundið verkfall stendur nú yfir meðal starfsmanna undirverktaka á athafnasvæði Alcoa Fjarðaráls. Verkfallið hófst í hádeginu og stendur til miðnættis en að viku liðinni hefst ótímabundið verkfall.

Sverrir Már Albertsson, framkvæmdarstjóri AFLs Starfsgreinasambands, sagði í samtali við mbl.is að um 340 starfsmenn væru í verkfalli. „Við höfum beint þeim skilaboðum til okkar fólks að það sýni ábyrgð þannig að það verði ekki skemmdir eða annað slíkt. Einnig að gæta öryggis og huga að umhverfi íbúa og starfsmanna. Þetta er ekki 100% verkfall. Við buðum líka að veita undanþágur til að forða mesta tjóninu en það var afþakkað.“

Verkfallið nær til starfsmanna eftirfarandi fyrirtækja: Brammer, Eimskipafélagið, Fjarðaþrif, Launaafl, Lostæri, Securitas, Sjónarás og VHE. Nær verkfallið eingöngu til þeirra starfa sem eru unnin á athafnasvæði verksmiðjunnar og á Mjóeyrarhöfn og til þeirra starfsmanna sem vinna að jafnaði 70% eða meira af starfi sínu sem verkefni fyrir Alcoa Fjarðarál.

Sverrir segir að verkfallið hafi auðvitað áhrif. „Framleiðslan minnkar. Einnig eru menn að borða af pappadiskum því það er enginn í uppvaski og það er ekkert ræst í dag. Það var eiginlega eina reglan sem við settum, að menn myndu sinna því sem þyrfti að gera til að forða stórtjóni.“

Vonir standa til að verkfallið leysist fljótlega. „Við báðum fólk að bíða á vinnustöðunum til að sjá hvort þetta leystist ekki á næstu tímum en vorum reyndar að fá óskir frá Alcoa þess efnis að fólkið færi.“

Sverrir er sæmilega bjartsýnn. „Menn eru að tala saman. Ég verð reyndar að játa það að ég skil ekki af hverju við erum ekki löngu búnir að semja, það stendur ekki á okkur.“ Hann telur að línur muni skýrast síðar í dag. „Ég er búinn að vera bjartsýnn áður, svo ég veit ekki núna. Við erum tvisvar búnir að fresta verkfalli af því að við héldum að við værum að ná saman. Þess vegna verð ég ekki bjartsýnn fyrr en við höfum skrifað undir endanlegt samkomulag við alla í dag.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert