Ábyrgðarfullt að sitja í sæti saksóknara

Magnús Guðmundsson
Magnús Guðmundsson mbl.is/Þórður

Andrúmsloftið í dómsal er áfram taugatrekkjandi eftir að yfirheyrslur hófust yfir Magnúsi Guðmundssyni, fv. forstjóra Kaupþing banka í Lúxemborg. Í ávarpi sínu lýsti hann sig saklausan, en fór einnig vandlega yfir starfsferil sinn hjá Kaupþingi, stofnun Kaupþing banka í Lúxemborg og aðkomu sína að meintri markaðsmisnotkun, sem hann er ákærður fyrir auk átta annarra.

Magnús fór einnig ítarlega yfir yfirheyrslur, gæsluvarðhald og hleranir sem hann varð fyrir og gagnrýndi embætti sérstaks saksóknara harðlega fyrir að gæta ekki meðalhófs, meðal annars með að fara í húsleit klukkan sex að morgni á heimili hans í Lúxemborg þegar hann var ekki heima, en það gerðist um tveimur árum eftir fall Kaupþings.

Tóku Bubba diska

Magnús sagði að þessar aðfarir við rannsókn málsins hafi gengið svo langt að lögmaður hans hafi verið hleraður, en að húsleitin heima hjá honum hafi farið yfir öll strik. Taldi hann til að meðal annars hafi sími og tölva konunnar hans og barns verið tekin sem og t.d. geisladiskar með upptöku frá tónleikum Bubba Morthens og Poul Krebs í Borgarleikhúsinu.

Gæsluvarðhaldið yfir Magnúsi var honum einnig hugleikið í ávarpinu og benti hann á að hann hefði verið boðaður í yfirheyrslu en svo úrskurðaður í gæsluvarðhald. „Það átti að skaða okkur eins mikið og hægt er,“ sagði Magnús og bætti við að um væri að ræða áróðursstríð þar sem blaðamenn hefðu verið mættir til að taka myndir af þeim í járnum.

Ekki í farbanni eftir dóminn

Í gæsluvarðhaldinu var Magnús í einangrun í sjö daga, en hann segir að á þeim tíma hafi hann fengið að fara út í eina klukkustund á dag og ekki mátt hitta neinn og verið yfirheyrður nokkrar klukkustundir alla vikuna. Í framhaldi af gæsluvarðhaldinu var hann úrskurðaður í farbann sem Magnús sagði óskiljanlegt.

Benti hann á að sérstakur saksóknari hafi talið hættu á að hann myndi flýja land, en að sama skapi hafi hann ekki verið úrskurðaður í farbann eftir að vera dæmdur í Al Thani málinu. Eina ástæðan fyrir þessu hafi verið að hlera síma hans, sem ekki hafi verið mögulegt í Lúxemborg. Eru þetta svipaðar ásakanir og Hreiðar Már Sigurðsson, fv. forstjóri Kaupþings, bar upp í ávarpi sínu í gær.

Vandasamt að sitja í sæti Björns

Endaði Magnús ávarp sitt á því að segja að það væri vandasamt og ábyrgðafullt að sitja í sæti Björns Þorvaldssonar, saksóknara, sem hefði óskað eftir gæsluvarðhaldi sem hafi orsakað að hann missti vinnuna sem bankastjóri Bank Havilland, auk hlerana og annað sem Magnús hefur talið gefnar á mjög hæpnum forsendum.

Þegar Magnús hafði lokið máli sínu sagði saksóknari að erfitt væri að sitja undir svona ávirðingum frá ákærðu þar sem hann gæti ekki varið hendur sínar. Hann vísaði ásökunum Magnúsar þó öllum á bug. Andrúmslofið í dómsal var í kjölfarið nokkuð rafmagnað, en greinilegt var á svörum Magnúsar í framhaldinu að köldu andaði á milli hans og Björns

BUBBI Morthens tók lagið með danska tónlistarmanninum Paul Krebs í …
BUBBI Morthens tók lagið með danska tónlistarmanninum Paul Krebs í Borgarleikhúsinu árið 2007. Saksóknari tók disk með tónleikunum í húsleit á heimili Magnúsar. Árni Sæberg
Magnús segir vandasamt að sitja í sæti Björns Þorvaldssonar.
Magnús segir vandasamt að sitja í sæti Björns Þorvaldssonar. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert