Fékk mínus 25 þúsund í laun

Hinn 7. apríl fóru ljósmæður í ótímabundið verkfall en Ljósmæðrafélag …
Hinn 7. apríl fóru ljósmæður í ótímabundið verkfall en Ljósmæðrafélag Íslands er meðal aðildarfélaga BHM. mbl.is/Golli

Áslaug Íris Valsdóttir, formaður Ljósmæðrafélags Íslands, segir ljósmæður vera orðnar langþreyttar á verkfallinu, en margar þeirra fengu lítil sem engin laun um mánaðamótin.

Áslaug bendir á að fjársýsla ríkisins hafi haldið eftir 40-60% af launum ljósmæðra um mánaðamótin þó svo þær hafi unnið fulla vinnuskyldu.

„Það er eðlilegt að verkfallsdagar hafi verið dregnir frá en það er verið að halda eftir launum fyrir unna vinnu,“ segir Áslaug. Hún segir dæmi um það að ein ljósmóðir hafi fengið launaseðil upp á mínus 25.000 krónur, og svo hafi algeng launatala um mánaðamótin verið 24.500 krónur. 

Frétt mbl.is: Jón Þór spyr um laun ljósmæðra

„Þetta er mjög sérstakt og ég held þetta hljóti að vera algjörlega ólöglegt. Þetta verður sjálfsagt leiðrétt en við höfum ekkert heyrt um það hvort eða hvenær það verði gert. Ef það verður það ekki þá er hreinlega verið að stela peningum þessa fólks,“ segir Áslaug og bætir við að margar ljósmæður hafi verið ergilegar síðustu daga vegna þessa.

Hinn 7. apríl fóru ljósmæður í ótímabundið verkfall en Ljósmæðrafélag Íslands er meðal aðildarfélaga BHM. Verkfallsaðgerðir ljósmæðra hafa því staðið yfir í fimm vikur, en ljósmæður í Reykjavík leggja niður störf á þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum, og á Akureyri á mánudögum og fimmtudögum.

Áslaug segir ekkert vera að gerast í samningaviðræðum og engan vilja né metnað hjá ríkinu til að leysa deiluna. „Mér finnst boltinn algjörlega vera hjá ríkinu og finnst ríkið algjörlega bera ábyrgð á þessum verkföllum. Þeim virðist vera alveg sama um fólkið.“

Kröfurnar eru þær að menntun sé metin til tekna og að grunnlaun séu hækkuð. Byrjendalaun ljósmæðra eru 390 þúsund fyrir sex ára háskólanám til starfsréttinda. Áslaug segir ljósmæður því fara fram á almennilega hækkun grunnlauna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert