Hlýrra en í apríl 2013

Það var mjög kalt fyrstu tvo daga apríl mánaðar og sömuleiðis í síðustu vikunni í apríl. Mun kaldara var í apríl 2013 heldur en nú, segir í yfirliti Veðurstofu Íslands yfir tíðarfar í aprílmánuði. Aftur á móti var apríl hlýr í fyrra.

Tíð var lengst af hagstæð um landið norðaustan- og austanvert, en þótti síðri í öðrum landshlutum. Hiti var lítillega undir meðallagi áranna 1961 til 1990 um landið suðvestanvert en annars yfir því – mest á Austurlandi þar sem hiti var einnig lítillega yfir meðallagi síðustu tíu ára. Úrkomusamt var norðan til á Vestfjörðum og sums staðar norðanlands – en úrkoma var í slöku meðallagi um landið suðvestan- og vestanvert.

Hlýjast norðaustan og austanvert

Mánaðarmeðalhitinn í Reykjavík mældist +2,4 stig, -0,5 stigum undir meðallagi áranna 1961 til 1990 en -1,5 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var mánaðarmeðalhitinn +2,6 stig, +1,0 stigi yfir meðallagi 1961 til 1990, en -0,1 stigi undir meðallagi síðustu tíu ára.

Að tiltölu var hlýjast um landið norðaustan- og austanvert, en kaldast við suður- og suðvesturströndina. Mesta jákvæða hitavik miðað við meðaltal síðustu tíu ára var +0,4 stig á Seyðisfirði, en mesta neikvæða vikið var á Skrauthólum þar sem hiti var -1,7 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára.

Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Kvískerjum, 4,1 stig, en lægstur á Þverfjalli og í Sandbúðum, -4,9 stig. Lægstur var meðalhitinn í byggð í Möðrudal, -1,1, stig.

Landsmeðalhiti í byggð var undir frostmarki 12 daga mánaðarins, það var sá 1. sem var kaldastur að tiltölu.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 19,9°C í Neskaupstað þann 18. Lægsti hiti á landinu mældist -22,7 stig á Brúarjökli þann 2. Lægsti hiti í byggð mældist -17,3 stig á Þingvöllum þann 2.

Mikil úrkoma norðan til á Vestfjörðum

Úrkomusamt var norðan til á Vestfjörðum og sums staðar norðanlands – en úrkoma var í slöku meðallagi um landið suðvestan- og vestanvert.  

Úrkoma í Reykjavík mældist 47,8 mm og er það 82 prósent af meðalúrkomu áranna 1961 til 1990. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 44,8 mm. Það er 85 prósent af meðallagi. Á Akureyri mældist úrkoman 48,0 mm og er það um 60 prósent umfram meðallag. Þetta er mesta úrkoma í apríl á Akureyri síðan 1989, en var þó nærri því eins mikil í apríl 2007. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 63,9 mm.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 13 í Reykjavík, einum fleiri en í meðalári. Á Akureyri voru slíkir dagar 8 og er það tveimur fleiri en í meðalári.

Mun minni sól en undanfarin tíu ár í Reykjavík en meiri sól á Akureyri

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 149,4 og er það 9 stundum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990, en 20 stundum undir meðallagi síðustu tíu ára. Sólskinsstundir á Akureyri mældust 140,2 og er það 11 stundum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 og 10 yfir meðallagi síðustu tíu ára.

Snjór var lengst af ekki mikill að magni til, en þó snjóaði óvenjumikið sums staðar austanlands síðustu daga mánaðarins.

Alhvítir dagar í Reykjavík voru 2, það er einum degi færri en að meðaltali í mars á árunum 1971 til 2000. Alhvítt var í 14 daga á Akureyri, þremur dögum færri en í meðalapríl áranna 1971 til 2000. Alhvítir dagar hafa þó ekki orðið jafnmargir í apríl á Akureyri síðan 1999, þá voru þeir 25.

Mesta rok sem vitað er um í apríl

Meðalvindhraði var óvenjumikill, 1,6 m/s ofan við meðallag. Þetta er mesti meðalvindhraði sem vitað er um í apríl, komst næst þessu í apríl 2011 og 1953, en hafa verður í huga að óvissa er nokkur í þessum landsmeðaltölum, segir í yfirliti Veðurstofu Íslands.

mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert