Höfnuðu 30 þúsund króna hækkun

Frá fundinum í morgun.
Frá fundinum í morgun. mbl.is/Eggert

„Þessi fundur færði okkur ekki mikið nær lausn málsins,“ segir Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins (SGS), í samtali við mbl.is en samninganefnd SGS fundaði í dag með fulltrúum Samtaka atvinnulífsins í húskynnum Ríkissáttasemjara. Fyrir fundinn var Björn Snæbjörnsson, formaður SGS, ekki bjartsýnn á að hann skilaði nokkru í samtali við mbl.is.

Vinnustöðvun SGS hefst á miðnætti og stendur í tvo sólarhringa. Einnig er gert ráð fyrir allsherjar vinnustöðvun allan sólarhringinn 19. og 20. maí verði ekki búið að semja fyrir þann tíma. Ótímabundin vinnustöðvun hefst síðan frá miðnætti aðfaranætur 26. maí.

Drífa segir að fundað verði aftur klukkan 13.30 á föstudaginn. Verkföllin á morgun og hinn muni bresta á og á meðan á þeim stendur verði engir viðræðufundir á milli deiluaðila.

Féllust ekki á tillögur SA um helgina

Spurð um tillögur SA um helgina segir Drífa að ekki hafi verið hægt að fallast á það tilboð. Með því hafi verið boðin launahækkun upp á tæplega 30 þúsund krónur á þremur árum. Það sé hins vegar víðsfjarri þeim 20% sem SA hafi talað um í því sambandi. 

„Það er mjög alvarlegt að þeir séu að slá ryki í augun á fólki,“ segir Drífa. Þessu yrði náð með lækkun annars staðar sem þýddi í raun að launþegar væru að greiða hækkunina sjálfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert