Ljósmæður herða á undanþágum

Hinn 7. apríl fóru ljósmæður í ótímabundið verkfall en Ljósmæðrafélag …
Hinn 7. apríl fóru ljósmæður í ótímabundið verkfall en Ljósmæðrafélag Íslands er meðal aðildarfélaga BHM. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ljósmæður hafa hert á undanþágum og í síðustu viku var 26 beiðnum vísað frá. Þá er það enn í skoðun að herða verkfallsaðgerðirnar frekar með því að færa aðgerðir yfir á heilsugæsluna, en með því myndi mæðravernd leggjast af. 

Hinn 7. apríl fóru ljósmæður í ótímabundið verkfall en Ljósmæðrafélag Íslands er meðal aðildarfélaga BHM. Verkfallsaðgerðir ljósmæðra hafa því staðið yfir í fimm vikur, en ljósmæður í Reykjavík leggja niður störf á þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum, og á Akureyri á mánudögum og fimmtudögum.

Óþægindastuðull fyrir konur

Frétt mbl.is: Fékk mínus 25 þúsund í laun

Áslaug Íris Valsdóttir, formaður Ljósmæðrafélags Íslands, segir verkfallið vera ákveðinn óþægindastuðul fyrir barnshafandi konur en eðli starfs ljósmæðra sé þannig að engum sé vísað á dyr. Öllum hefðbundnum fæðingum hafi verið sinnt í verkfallinu, en keisaraskurðir hafi færst til. „En það er ekki hægt að fresta endalaust þar sem þetta endar allt með barni í þessum geira,“ segir Áslaug. Þá segir hún sömu sögu af fósturgreiningardeildinni, en þar hafa færst til rannsóknir og einhverjar verið lagðar niður. Þá hafi verkfallið jafnframt haft áhrif á mæðraverndina.

Áslaugsegir mjög vel vera farið yfir allar undanþágubeiðnir og passað sé upp á það að stofna ekki öryggi í hættu. „Eðli starfsins er þannig að það er ekki hægt að vera glerharður,“ segir hún en bætir við að nú sé í skoðun að færa aðgerðir yfir á heilsugæsluna. „Við erum að meta hvort það sé skynsamlegt. Þá yrði engin mæðravernd á höfuðborgarsvæðinu og það er auðvitað ekki góður kostur og mun bitna á konunum.“ Þá ítrekar hún að allar undanþágur sem snúa að öryggismönnun séu samþykktar, en frekar sé beiðnum um undanþágur fyrir bakvaktir eða hugsanlega aukamönnun neitað. 

„Ríkið ber algjörlega ábyrgð á þessum verkföllum“

Áslaug segir ekkert vera að gerast í samningaviðræðum. „Við gengum út af fundi í gær og bíðum núna bara eftir að þeir bjóði okkur eitthvað af viti,“ segir hún og bætir við að enn sé aðeins talað um 3,5 prósenta hækkun launa. „Það sér það hver maður að það er engin alvara í því.“

Þá segir hún engan vilja né metnað hjá ríkinu til að leysa deiluna. „Það eru ótrúlega gamaldags vinnubrögð að árið 2015 sé fólk ennþá látið dúsa í margar vikur í verkfalli. Það geta ekki verið eðlileg vinnubrögð. Það hefur verið vitað síðan í fyrra í hvað stefndi en það er ekkert gert,“ segir hún og heldur áfram. „Mér finnst boltinn algjörlega vera hjá ríkinu og finnst ríkið algjörlega bera ábyrgð á þessum verkföllum. Þeim virðist vera alveg sama um fólkið.“

Kröfurnar eru þær að menntun sé metin til tekna og að grunnlaun séu hækkuð. Byrjendalaun ljósmæðra eru 390 þúsund fyrir sex ára háskólanám til starfsréttinda. Áslaug segir ljósmæður því fara fram á almennilega hækkun grunnlauna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert