Málinu lokið eða ekki lokið?

Ögmundur Jónasson, þingmaður VG.
Ögmundur Jónasson, þingmaður VG. mbl.is/Friðrik Tryggvason

Formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, Ögmundur Jónasson þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, mótmælti því í ræðustól þingsins í dag að lekamálinu svokölluðu væri lokið eins og fram kemur í áliti meirihluta nefndarinnar. Málinu væri hvorki lokið með afsögn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur sem innanríkisráðherra né áliti umboðsmanns Alþingis um samskipti hennar við þáverandi lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins vegna málsins.

Vísaði Ögmundur þar til þess að Hanna Birna hefði sagt í bréf í tengslum við afsögn sína að afsögnin væri af persónulegum ástæðum en ekki pólitískum. Þar með væri þó ekki sagt að afsögnin hefði ekki áhrif á pólitískar lyktir málsins. Hins vegar væri umfjöllun umboðsmanns Alþingis og álitsgerð hans væri miklu þrengri en sú sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins hefði haft með höndum. Nálgun nefndarinnar tæki þannig til upplýsinga- og sannleiksskyldu ráðherra gagnvart Alþingi. Vísaði hann þar í álit minnihluta nefndarinnar. Fyrir lægi að Hanna Birna hefði veitt þinginu rangar upplýsingar um þróun málsins.

Málsmeðferðin „einsdæmi í sögu þingsins“

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, tók til máls fyrir hönd meirihluta nefndarinnar og sagði Alþingi sett í afar sérkennilega stöðu vegna málsins svo ekki væri meira sagt. „Hér mæli ég fyrir meirihlutaáliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem sett er fram við minnihlutaálit nefndarinnar sem er viðbrögð minnihlutans í nefndinni við áliti umboðsmanns Alþingis um málefni fyrrverandi innanríkisráðherra. Virðulegi forseti, ég finn þessari málsmeðferð hvergi stað í þingskaparlögum og er einsdæmi í sögu þingins.“

Vigdís sagði þá ákvörðun Einars K. Guðfinnssonar, forseta Alþingis, að heimila umræðuna skapa fordæmi til framtíðar en sýndi um leið mikilvægi þess að sett yrði á stofn sérstök lagaskrifstofa þingsins sem hefði meðal annars það hlutverk að skera úr hvort mál væru þingtæk. Vigdís las síðan upp álit meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og ítrekaði niðurstöðu þess um að málinu væri lokið að mati hans með afsögn ráðherra og áliti umboðsmanns Alþingis.

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert