Sigurður hafnar öllum ásökunum

Sigurður Einarsson.
Sigurður Einarsson. mbl.is/Þórður

Sigurður Einarsson, fv. stjórnarformaður Kaupþings, gat ekki boðið hluti í bankanum til sölu með fullri fjármögnun og í raun er salan og fjármögnunin tveir ólíkir hlutir og gat lánanefnd bankans alltaf hafnað útlánum, sama hvað yfirmenn bankans sögðu. Þetta sagði Sigurður við yfirheyrslur yfir honum í dómsal í dag.

Sigurður hefur neitað að hafa haft samband við einhverja starfsmenn eigin viðskipta bankans, en viðskipti deildarinnar eru undirstaða ákæruliðs á kauphlið málsins.

Gat ekki boðið hlutina til sölu

Saksóknari spurði hann einnig ítrekað út í söluhliðina, en þar er ákært fyrir sölu og fjármögnun bankans til þriðja aðila með veði í bréfunum sjálfum. Sagði Sigurður að sem stjórnarformaður hafi hann ekki getað boðið hluti í bankanum til sölu með fullri fjármögnun, slíkt hafi ekki verið innan hans verkahrings og hann ekki haft heimildir til að skipta sér af einstaka viðskiptum, samanber lög um fjármálafyrirtæki.

Saksóknari spurði hann um sölu og fjármögnun félaganna Holts, Mata, Desulo og til Kevin Stanfords. Sagðist Sigurður ekki hafa haft neina aðkomu að málinu fyrr en þau komu fyrir stjórn eða þegar þau komu til lánanefndar þar sem hann sat.

Símtöl og vitnisburður annarra beinast að Sigurði

Saksóknari lagði fram endurrit og spilaði símtöl milli annarra starfsmanna bankans sem hann telur ýta undir  þær röksemdir að Sigurður hafi komið að ákvörðunum um sölu og fjármögnun fyrrnefndra viðskipta. Gerði Sigurður athugasemdir við það sem þar kom fram og sagði að taka þyrfti mið af þeim aðstæðum sem fólk væri í þegar það lét orðin falla, en rannsóknarnefnd Alþingis hafi þá nýlega verið birt og miklar nornaveiðar væru í þjóðfélaginu.

Í öðru símtali var vitnað í Ingólf Helgason, fv. forstjóra Kaupþings á Íslandi. Sagði hann þar að Hreiðar og Sigurður hefðu verið upplýstir í öllum stærri viðskiptum út úr safni bankans. Sagðist Sigurður ekki hafa fengið þessar upplýsingar, nema sem stjórnarmaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert