Yfir helmingur starfsfólks í verkfalli

Friðrik Pálsson, hótelhaldari Hótel Rangár.
Friðrik Pálsson, hótelhaldari Hótel Rangár. mbl.is/Friðrik Tryggvason

Yfir helmingur starfsfólksins á Hótel Rangá mun leggja niður störf frá miðnætti í kvöld og næstu tvo sólarhringa í vinnustöðvun Starfs­greina­sam­bands­ins (SGS). Friðrik Pálsson, hótelhaldari Hótel Rangár, segir næstu daga vissulega verða erfiða, en þar sem hótelið sé ekki fullbókað eigi gestir ekki að finna fyrir áhrifum.

„Við verðum býsna fáliðuð í dag og á morgun en okkur sýnist að með þeim mannafla sem við höfum muni viðskiptavinurinn ekki verða ýkjamikið var við óþægindi vegna þessa,“ segir Friðrik í samtali við mbl.is. „En það verður auðvitað mikið álag á fólk sem er á vakt, en þannig er það bara.“

Eigendum fyrirtækja er heimilt að ganga í störf þeirra starfsmanna sem eru í verkfalli. Friðrik mun gera þetta og vinna með þeim sem á annað borð mega vinna. Í ræstingum má yfirþernan vinna, en Friðrik mun hjálpa henni svo hægt verði að gera herbergi gesta tilbúin áður en gestir mæta. 

Boðuð hef­ur verið vinnu­stöðvun frá miðnætti í kvöld og næstu tvo sól­ar­hringa og frek­ari aðgerðir á næst­unni ná­ist samn­ing­ar ekki við at­vinnu­rek­end­ur fyr­ir þann tíma. Einnig er gert ráð fyr­ir alls­herj­ar vinnu­stöðvun all­an sól­ar­hring­inn 19. og 20. maí verði ekki búið að semja. Ótíma­bund­in vinnu­stöðvun hefst síðan frá miðnætti aðfara­næt­ur 26. maí.

Friðrik segist vonast til þess að samið verði áður en til umfangsmeiri aðgerða kemur. „Það er hálfur mánuður í næsta boðaða verkfall og það hljóta allir vel meinandi menn í þjóðfélaginu að vonast til þess að hægt verði að ná lausn innan þess tíma,“ segir hann. „Það er óhugsandi ef allsherjarverkfall verður látið ganga yfir okkur.“

En hvaða áhrif myndi slík vinnustöðvun hafa? „Ég vil ekki leyfa mér að hugsa það til enda,“ segir Friðrik. „En það er á hreinu að skilaboðin út á við yrðu alveg skelfileg.“

Loks segist hann hafa trú á því að aðilar sem sitja beggja megin við borðið átti sig á þeim afleiðingum sem allsherjarverkfall hefði. „Ég treysti þeim til að finna farsæla lausn áður en til þess kemur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert