Bólusetningarátak fyrir börn á skjálftasvæðunum í Nepal

Þriggja ára stúlka fær bólusetningu gegn mislingum í Katmandú-dalnum.
Þriggja ára stúlka fær bólusetningu gegn mislingum í Katmandú-dalnum. Ljósmynd/UNICEF

Meira en hálf milljón barna verða bólusett hið fyrsta á skjálftasvæðunum í Nepal en óttast er að mislingafaraldur gæti brotist þar út. UNICEF og samstarfsaðilar standa fyrir átakinu, ásamt nepalska heilbrigðisráðuneytinu.

Mörg börn hafast nú við undir berum himni, þar sem hreinlætisaðstaða er af skornum skammti, samkvæmt upplýsingum UNICEF. Við slíkar aðstæður geta mislingar auðveldlega breiðst út, sem og aðrir hættulegir sjúkdómar. Börn verða auk þess auðveldlega vannærð þegar skortur er á staðgóðri næringu sem aftur eykur hættuna á því að þau veikist.

„Mislingar eru ákaflega smitandi og geta verið lífshættulegir. Við óttumst að þeir gætu breiðst mjög hratt út við þær þröngu aðstæður sem ríkja í neyðarskýlunum sem sprottið hafa upp og þar sem mörg börn halda nú til,“ segir yfirmaður UNICEF í Nepal, Tomoo Hozumi, í fréttatilkynningu.

Börn eru hvað mest berskjölduð við neyðaraðstæður eins og nú eru á hamfarasvæðinu en um helmingur íbúa landsins eru börn. Fyrir skjálftann var um tíunda hvert barn í Nepal óbólusett gegn mislingum. Afar brýnt er að ná til þeirra sem fyrst.

Ódýrt bóluefni

Einn skammtur af bóluefni gegn mislingum kostar um 36 krónur. Fyrir 1.500 krónur er því sem dæmi hægt að útvega rúmlega 40 skammta af bóluefni.

Hægt er að styrkja neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi með því að senda sms-ið UNICEF í númerið 1900 og gefa þannig 1.500 krónur til neyðaraðgerðanna í Nepal. Söfnunin er enn í fullum gangi.


Umfangsmiklar neyðaraðgerðir

Auk þess að bólusetja börn og reyna að koma í veg fyrir mislingafaraldur setur UNICEF í forgang að útvega hreint vatn og hreinlætisaðstöðu. Teppum, tjöldum og lyfjum hefur einnig verið dreift og barnvæn svæði verið opnuð, svo dæmi séu tekin.

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, hefur starfað á vettvangi í Nepal í meira en 50 ár og gjörþekkir því innviði þar. Helstu hjálpargögn til fyrstu neyðaraðgerða voru til staðar hjá UNICEF í landinu þegar skjálftinn reið yfir.

UNICEF hefur einsett sér að ná til hátt í þriggja milljóna barna á skjálftasvæðunum á næstu vikum og mánuðum.

Hægt er að styrkja neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi með því að senda sms-ið UNICEF í númerið 1900 og gefa þannig 1.500 krónur. Einnig er hægt að leggja frjáls framlög inn á söfnunarreikning 701-26-102040, kt. 481203-2950. Á heimasíðunni unicef.is er einnig hægt að styrkja með kreditkorti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert