Óeðlileg vinnubrögð en ekki einelti

Héraðsdómur Reykjavíkur telur sannað að Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, hafi vísvitandi gengið fram hjá Söru Lind Guðbergsdóttur, þáverandi deildarstjóra ráðgjafadeildar félagsins, eftir að Ólafía tók við sem formaður.

„Byggja verður á því að hún hafi vísvitandi gengið fram hjá stefnanda þegar hún leitaði ítrekað til undirmanns hennar þegar fjalla skyldi um viðfangsefni deildar þeirrar sem stefnandi veitti forstöðu. Fallast má á það með stefnanda að þetta hafi ekki verið eðlileg vinnubrögð,“ segir í dómi héraðsdóms. Hins vegar er ekki fallist á að framkoman hafi flokkast undir einelti, útilokun frá starfsemi VR og þeim verkefnum sem hún hafi átta að vinna samkvæmt skipuriti og þar sem sýnd lítilsvirðing eins og Sara Lind hafi haldið fram fyrir dómi. 

„Starfsmaður á almennt ekki kröfu til þess að sinna ákveðnum verkefnum eða að aðrir sinni þeim ekki. Úrræði starfsmanns gagnvart slíku eru ekki önnur en riftun ráðningarsamnings. Þótt vinnubrögð formanns hafi ekki getað talist eðlileg fólst ekki í þessari framgöngu ólögmæt meingerð gegn persónu eða æru stefnanda,“ segir í dómsorði. Frekar sé ekki hægt að leysa úr málsástæðum hennar hvað þetta varðar.

Ekki er heldur fallist á að uppsögn Söru Lindar hafi verið ólögmæt. Henni hafi verið sagt upp af framkvæmdastjóra VR sem hefði haft til þess heimild. Henni hafi verið greint frá ástæðum uppsagnarinnar á fundi og síðan bréflega að hennar kröfu. Ósannað sé að skýringar sem gefnar hafi verið fyrir uppsögninni hafi verið fyrir­sláttur. Með uppsögninni hafi ekki verið unnin ólögmæt meingerð gegn henni.

Sara fór fram á miskabætur vegna málsins en héraðsdómur kemst að þeirri niðurstöðu að ekki séu forsendur til þess. Sara Lind hafi ekki sýnt fram á að framganga formanns VR hafi valdið henni skaða í skilningi skaðabótalaga. Dómurinn telur ennfremur ekki sannað að hún hafi sætt einelti eftir að hún lét af störfum. VR var því sýknað af kröfum Söru Lindar og málskostnaður látinn niður falla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert