Ekkert rignt í fimmtán daga

Sólríkt hefur verið á Suður- og Vesturlandi síðustu vikurnar. Ekkert …
Sólríkt hefur verið á Suður- og Vesturlandi síðustu vikurnar. Ekkert hefur rignt í rúmlega tvær vikur. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Ekki hefur rignt almennilega á Suður- og Vesturlandi í fimmtán daga. Íbúar þeirra landsvæða hafa orðið varir við skraufþurrt loft og jörð og síðustu daga hefur slökkvilið höfuðborgarsvæðisins þurft að berjast við sinuelda vegna þess, m.a. í Kópavogi og við Hvaleyravatn. Að sögn veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands er ekki útlit fyrir úrkomu á Suður- og Vesturlandi næstu daga.

„Næstu vikuna er spá keimlíkri stöðu áfram hérna sunnan og vestanlands með köldu og þurru veðri,“ segir Teitur Arason, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands í samtali við mbl.is.

„Síðan á sumardaginn fyrsta er búin að vera köld norðanátt á landinu sérstaklega í vikunni eftir sumardaginn fyrsta. Þá snjóaði talsvert fyrir norðan og austan en síðustu vikuna hefur verið minni úrkoma og við sitjum bara í kalda loftinu,“ segir Teitur. „Helgina fyrir sumardaginn fyrsta voru hlýjar sunnan áttir og allur snjór farinn meira og minna fyrir norðan og austan. Þá rigndi hérna sunnan og vestan lands.“

Köld og þurr norðan átt algeng á þessum tíma

Samkvæmt upplýsingum frá Teiti rigndi síðast á Suður- og Vesturlandi 21. apríl síðastliðinn, fyrir 15 dögum síðan. Hann segir að þetta sé eðlilegt veðurfar fyrir Hörpu mánuð sem er sjöundi mánuður ársins og fyrsti sumarmánuðurinn í gamla norræna tímatalinu.

„Harpa hefst yfirleitt í kringum 20. apríl og er til 20. maí. Þá er köld og þurr norðan átt algengust,“ segir Teitur. „Þarna verða breytingar á hringrásinni sem verða þegar það skiptist úr lægðarátökum vetrarins yfir í átakaminna veður um sumarið. Lægðirnar eru hættar að koma en loftið hér á norðurslóðum er ennþá kalt.“

Lægðirnar hættar að koma í bili

Teitur segir að lægðirnar sem koma á veturna færi okkur hlýindi en einnig vind og erfiðleika sem honum fylgir. „En þegar þær hætta að koma á þessum árstíma er loftið ennþá kalt. Nú er útlit fyrir að við sitjum í kalda loftinu í að minnsta kosti viku í viðbót. En svo hlýnar á norðurslóðum og sumarið kemur smám saman. Sólin fer að ná hámarki sínu eftir einn og hálfan mánuð og þarf bara tíma til að vinna í því að hita loftið.“

Aðspurður hvort að einhver hlýindi séu í kortunum segist Teitur ekki búast við því. „Það verða kannski einhver tilbrigði næstu vikuna en í grunninn er þetta það sama. Við erum í köldu lofti en það er sólríkt og í góðu skjóli við vegg er hægt að láta sólina hlýja sér. En það fer yfirleitt í frost á nóttunni.“

Teitur segir að þurrkur sem þessi auki líkurnar á sinubruna töluvert eins og sést hefur undanfarna daga. „Það er auðvitað allt skraufþurrt,“ segir Teitur og bætir við að þegar það kemur að sinueldi getur næturfrosti hjálpað til við að minnka líkurnar á honum. „En eftir því sem líður á vorið og fram í júní minnka líkurnar á næturfrosti. Það getur látið á sér kræla fram í júní en líkurnar á því fara minnkandi eftir því sem líður á mánuðinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert