Forstjóri Strætó áhyggjufullur

Fjölmargar ferðir Strætó á landsbyggðinni falla niður í dag og …
Fjölmargar ferðir Strætó á landsbyggðinni falla niður í dag og á morgun. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Fjölmargar ferðir Strætó á landsbyggðinni féllu niður í dag og munu falla niður á morgun vegna verkfallsaðgerða Starfsgreinasambandsins (SGS). Samkvæmt heimasíðu Strætó falla allar ferðir á leiðum 51,56,59,72,73,74, 75,78 og 79 niður í dag og flestar ferðir leiðar 57. Ferðirnar eiga það sameiginlegt að vera á landsbyggðinni og hefjast aðeins 51 og 57 í Reykjavík.

Að sögn Jóhannesar Rúnarssonar, forstjóra Strætó, falla þær ferðir niður sem vanalega eru keyrðar af bílstjórum sem eru meðlimir í þeim verkalýðsfélögum á landsbyggðinni sem taka þátt í aðgerðum SGS.

„Ef að bílstjóri er í verkfalli þá er sú leið ekki keyrð þannig að þeir bílstjórar sem ekki eru í verkfalli keyra ekki meira en venjulega,“ segir Jóhannes í samtali við mbl.is.

Jóhannes á erfitt með að meta hvað aðgerðirnar í dag og á morgun hafa áhrif á marga en hann segir að mikill dagamunur sé á því hversu margir nýta sér ferðirnar. „Það er auðvitað langflestir farþegar í kringum helgarnar. Almennt er mjög mikið af farþegum í vögnunum sem fara frá borginni til Selfoss, Akraness og Suðurnesjanna, þá í samræmi við háannatíma í Reykjavík á morgnanna og seinnipartinn. En þegar það kemur að lengri leiðunum og leiðunum úti á landi er flestir farþegar um helgar. Þá eru jafnvel notaðir aukavagnar.“

Ferðaþjónusta fatlaðra mun skerðast í verkfalli 

Jóhannes segist hafa miklar áhyggjur af aðgerðum SGS en einnig af mögulegum verkfallsaðgerðum annarra bandalaga. „Ef að Flóabandalagið boðar til verkfalls hefur það meiri áhrif hér í Reykjavík. Allur okkar verktakaakstur hér í Reykjavík er þá undir og Ferðaþjónusta fatlaðs fólks að hluta til,“ segir Jóhannes. „Það myndi hafa víðtækari áhrif en aðgerðirnar núna á landsbyggðinni þó þær hafi vissulega áhrif.“

Flóabandalagið, VR og Landsamband íslenskra verslunarmanna kynntu í gær samstillar verkfallsaðgerðir sem lagðar eru fyrir félagsmenn í atkvæðagreiðslu. Beinast aðgerðirnar að ákveðnum atvinnugreinum og hefjast 28. maí og ná hármarki með ótímabundnu allsherjarverkfalli sem hefst 6. júní, hafi ekki samist. Félög verkafólks á höfuðborgarsvæðinu og í Reykjanesbæ standa að Flóabandalaginu. 

Jóhannes segir að ekki hafi borist kvartanir vegna aðgerðanna beint til Strætó. „Við erum enginn aðili að þessu verkfalli og getum engin áhrif haft. Það er ósköp lítið sem við getum gert því miður.“

Jóhannes Rúnarsson, forstjóri Strætó.
Jóhannes Rúnarsson, forstjóri Strætó.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert