Voru að hvíla sig á lærdómnum

Stúlkurnar með nokkra gleðimiða.
Stúlkurnar með nokkra gleðimiða. Af vef Hafnarfrétta

Gleðigjafarnir sem hafa seinustu tvo morgna límt skemmtileg og jákvæð skilaboð um alla Þorlákshöfn eru komnir í leitirnar. Gleðigjafarnir eru fimm sniðugar stúlkur sem ákváðu að hvíla sig á lærdómnum og senda jákvæð skilaboð út í samfélagið.

„Við erum í lokaprófum og vorum búnar að læra mjög lengi, vorum orðnar þreyttar og nenntum ekki að læra meira,“ segir Sigrún Sól Jónsdóttir, einn gleðigjafanna, í samtali við mbl.is aðspurð um hvað stúlkunum gekk til.

Að sögn Sigrúnar Sólar ákváðu vinkonurnar að fara út og skilja eftir litla miða með jákvæðum skilaboðum. Stúlkurnar eru allar nemendur við Fjölbrautarskóla Suðurlands. Ásamt Sigrúnu Sól voru það þær Arna Björg Gunnarsdóttir, Sunna Ýr Sturludóttir, Ásdís Birta Auðunsdóttir og Sara Lind Traustadóttir sem dreifðu miðunum. Sigrún, Sunna og Ásdís eru sautján ára gamlar en Arna átján ára og Sara sextán ára.

„Fyrst ætluðum við bara að setja svona miðja hjá vinum okkar en ákváðum svo að setja þá hjá fullt af fólki. Þetta var alveg geðveikt skemmtilegt,“ segir Sigrún Sól og bætir við að uppátækið hafi fengið frábær viðbrögð og segir að það sé skemmtilegt að gleðja aðra.

Samkvæmt frétt Hafnarfrétta skildu stúlkurnar miða eftir um alla bæ og á þeim sagði m.a. „Þú ert æði og í Þorláksheaven!“ og „Þú er frábær í alla staði“.

Samkvæmt heimildum Hafnarfrétta voru einhverjir íbúar farnir að huga að því að geyma bíl sinn úti með von um að fá gleðipóst daginn eftir.

Frétt mbl.is: Gleðigjafar á ferð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert