Starfsfólk og viðskiptavinir hafa fengið nóg

Óvenjumargir þurfa að endurnýja vegabréf sín þetta árið. Þau vegabréf …
Óvenjumargir þurfa að endurnýja vegabréf sín þetta árið. Þau vegabréf sem nú eru að renna út eru frá árunum 2005 og 2010. Morgunblaðið/Eggert

„Þetta er ekki mönnum bjóðandi, hvorki kúnnum né starfsmönnum,“ segir Hildur Edwald, fagstjóri yfir ökuskírteina- og vegabréfadeild hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Hún segir álagið hjá sýslumanni hafa aukist mikið en í dag sé bið eftir afgreiðslu til að fá vegabréf frá einni upp í tvær klukkustundir. „Það hefur alltaf verið rosalega mikið álag milli klukkan tvö og þrjú á daginn en síðustu daga hefur álagið verið svona frá klukkan hálfníu til þrjú,“ segir Hildur.

Fólk bíður úti

Hildur segir húsnæði sýslumanns troðið af fólki og röð nái fram á gang. „Það er ekki hægt að ganga um með góðu móti, hér er stappað af fólki, bæði inni og frammi á gangi við útidyrnar, ekki eru sæti fyrir nærri því alla. Fólk hefur þurft að sitja í stiganum og bíða jafnvel úti. Það er erfitt að lýsa þessu með öðrum orðum en að þetta ástand hérna sé klikkun og starfsfólk orðið langþreytt á ástandinu.“

Tvöfalt álag

Um líklegar skýringar segir Hildur að hópur þeirra sem þurfi að endurnýja vegabréf sé í raun tvöfalt stærri en síðustu ár. „Á árinu 2010 voru gefin út fimm ára vegabréf sem renna út 2015 en 2005 var verið að gefa út tíu ára vegabréf sem renna líka út 2015, þannig að þetta er í rauninni bara tvöfalt álag. Það er trúlegasta skýringin en það er ekki tímabundið ástand heldur nær yfir allt árið.“

Hildur nefnir einnig sameiningu embætta sýslumanna sem mögulega skýringu en embættin á höfuðborgarsvæðinu hafi verið sameinuð um áramótin sem hafi falið í sér ákveðnar skipulagsbreytingar. Þá segir hún manneklu einnig stórt vandamál í þessu samhengi, embættið upplifi fjársvelti en húsnæði og tölvubúnaður takmarki þó einnig möguleika á hraðari afgreiðslu. Vegabréfamyndavélar á starfsstöð hennar séu fimm og allar séu þær í notkun.

Ný kerfi væntanleg

„Við vinnum landlægt með mjög gamalt og lúið tölvukerfi sem er í því að hrynja og bila. Svo eru tölvurnar að frjósa sem veldur enn meiri bið,“ segir Hildur. Hún segir þó nýtt vegabréfakerfi vera í skoðun hjá Þjóðskrá og væntanlegt til reynslu nú í sumar. Ekki fengust svör frá Þjóðskrá varðandi nýja kerfið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert