Gott að hafa föðurlandið við höndina

Veðurklúbburinn spáir köldum maí
Veðurklúbburinn spáir köldum maí mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Tilfinning manna er að það verði kalt, allavega þennan mánuðinn,“ sagði Júlíus Baldursson, meðlimur í veðurklúbbnum á Dalvík í samtali við mbl.is. 

Ekki ríkir mikil bjartsýni fyrir nýhafinn maímánuð. Fólki er ráðlagt að hafa föðurlandið við höndina fyrst um sinn því það má gera ráð fyrir köldum mánuði. Veðurklúbburinn vekur athygli á nýju tungli sem kviknar 18. maí og boðar það annað hvort gott eða slæmt veður. Flestir voru á því að í þetta skiptið boði tunglið ekkert gott en þó munu sjást sólarglennur af til, svo fólk gleymi því ekki að sumarið sé á næsta leyti. 

Sumarið virðist enn láta bíða eftir sér. „Já, okkur finnst vora hægt. Það fer allt seinna af stað heldur en við áttum von á. Það læðist upp að okkur ís og það er alltaf einhver kuldi, þó við fáum góðar glennur inn á milli,“ sagði Júlíus.

Veðurklúbburinn á Dalbæ á Dalvík kom til fundar í gær og spáði fyrir um hvernig veðri við megum búast við í maí. Ólíkt öðrum veðurspámönnum styðjast meðlimir ekki við vísindi eða útreikninga þegar spár eru gerðar. Frekar er stuðst við draumfarir og stöðu tungla á himinhvolfinu.

Einnig var farið yfir hvernig spádómar fyrir síðasta mánuð hefðu gengið eftir. Var það almennt álit að mánuðurinn hafi verið kaldari en búast var við þó spár hafi að mestu gengið eftir.

Veðurvefur mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert