Nansý Norðurlandameistari annað árið í röð

Nansý Davíðsdóttir
Nansý Davíðsdóttir Af vef Reykjavíkurborgar

Nansý Davíðsdóttir, sem er nemandi í 7. bekk Rimaskóla, sigraði í yngsta flokki á Norðurlandamótinu í skák annað árið í röð. Þetta kemur fram á vef Reykjavíkurborgar.

Norðurlandamótið í skólaskák stúlkna 2015 var haldið í bænum Kolding í Danmörku dagana 1. - 3 maí. Sex íslenskar unglingalandsliðsstúlkur tóku þátt í mótinu. 

Líkt og í fyrra þegar mótið fór fram á Bifröst í Borgarfirði þá sigraði Nansý nokkuð örugglega. Hún hlaut 4,5 vinning úr 5 skákum, vinning meira en helsti keppinautur hennar, sænska stúlkan Anna Cramling Bellon, sem er dóttir Piu Cramling fv. heimsmeistara kvenna í skák.

„Nansý Davíðsdóttir er ein efnilegasta skákkona landsins um þessar mundir. Hún stundar nám í Rimaskóla og hefur orðið Norðurlandameistari með skáksveitum skólans árin 2011, 2012 og 2013. Í síðasta mánuði vann Rimaskóli fjölmennt Íslandsmót grunnskólasveita 5. árið í röð og leiddi Nansý sveitina til sigurs.

Skáksveit Rimaskóla teflir á Norðurlandamóti grunnskólasveita í Danmörku í september nk.,“ segir á vef Reykjavíkurborgar.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert