Níu ára barn slapp naumlega

Mynd úr safni af börnum að leik
Mynd úr safni af börnum að leik mbl.is/Kristján Kristjánsson

Níu ára stúlka slapp naumlega þegar hún festist í neti í leiktæki nýverið en stúlkan var með reiðhjólahjálm á höfði. Litlu mátti muna að hún hengdist í bandi hjálmsins en það var henni til happs að fullorðin manneskja kom að og gat losað hana. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Herdísi L. Storgaard, verkefnastjóra hjá Miðstöð slysavarna barna.

„Stúlkan sem er 9 ára og var úti að hjóla með vinkonu sinnu og fóru þær á leiksvæði sem er í grennd við heimili hennar. Stúlkan fór að klifra í leiktæki en hafði ekki tekið reiðhjólahjálminn af sér, skrikaði fótur og rann hún  niður í net sem er hluti af leiktækinu.  Hjálmurinn festist í netinu og þarna hangir hún og getur ekki losað sig.

Litlu munaði að hún hengdist í  bandi hjálmsins. Það sem vildi henni til happs var að þarna koma fullorðinn einstaklingur að og gat losað hana. Stúlkunni varð ekki meint af en hún var með sýnilega áverka á hálsi eftir bandið.  Haft var samband ið sveitarfélagið sem brást strax við í kjölfar atviksins og fjarlægði þann hluta tæknisins sem slysið átti sér stað í,“ segir í tilkynningu.

Herdís biður foreldra um að sjá til þess, að ef börn sem ekki geti tekið af sér hjálma, séu í fylgd fullorðinna ef farið er hjólandi á leiksvæði. Varðandi eldri börn biður hún um að foreldrar kenni börnunum sínum að taka ávalt af sér hjálminn áður en þau fara að leika sé í leiktækjum og klifra í trjám.

Lífshættulegt leiksvæði við gamla slippinn í Reykjavík

„Einnig skal  á það bent að þrátt fyrir að reglugerð um öryggi leikvallatækja sé í gildi frá árinu 2006 þá er langur vegur frá því að öll leiktæki á landinu uppfylli skilyrði þeirra. Einnig er talsvert um að sveitarfélög láti ekki framkvæma árlega aðalskoðun á tækjunum eins og reglugerðin gerir ráð fyrir og í sumum tilfellum þá er staðan sú að  þessi skoðun er framkvæmd og að engar lagfæringar eru gerðar í kjölfarið þrátt fyrir að um hættulegar ábendingar sé að ræða. Sökum þessa eru talsverðar líkur á því að það séu lífshættuleg leiktæki  víðvegar um landið,“ segir í tilkynningu.

Að sögn Herdísar hefur sú þróun einnig rutt sér til rúms hér á landi að verið sé að smíða tæki af áhugahópum og hönnuðum sem oft á tíðum framfylgja ekki  reglugerðinni en hún er skrifuð með það í huga að koma í veg fyrir að börn hengi sig í tækjum eða slasi sig varnalega við það að detta úr þeim á harða jörðina. Nefnir hún sem dæmi leiksvæði við gamla slippinn í Reykjavík en þar eru allar reglur brotnar og er lífshættulegt fyrir börn að vera þar að leik, segir Herdís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert