Sakar sýslumann um verkfallsbrot

Umrædd leyfi tengdust annars vegar árshátíð starfsmanna Kópavogsbæjar en hins …
Umrædd leyfi tengdust annars vegar árshátíð starfsmanna Kópavogsbæjar en hins vegar tækifærisleyfi vegna stórafmælis Kópavogs hinn 10. maí næstkomandi. mbl.is/Sigurður Bogi

Bandalag háskólamanna telur að sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hafi framkvæmt verkfallsbrot með því að veita tvö leyfi þrátt fyrir endanlegan úrskurð undanþágunefndar um að hafna beiðnunumog lítur BHM málið alvarlegum augum.

BHM segir í tilkynningu, að sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu hafi borist umsókn Kópavogsbæ um afgreiðslu tveggja tækifærisleyfa 29. apríl síðastliðinn. Annars vegar hafi verið um að ræða tímabundið tækifæris- og áfengisleyfi laugardaginn 9. maí í tilefni af árshátíð starfsmanna Kópavogsbæjar en hins vegar tækifærisleyfi vegna stórafmælis Kópavogs hinn 10. maí næstkomandi.

Tekið er fram, að sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu sendi svokallaðri undanþágunefnd sem skipuð sé skv. 21. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna beiðni um undanþágu frá verkfalli meðal lögfræðinga hjá embætti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu vegna beggja umsókna Kópavogsbæjar. Í 20. gr. laganna sé kveðið á um að sé verkfall hafið sé heimilt að kalla starfsmenn, sem séu í verkfalli, tímabundið til vinnu í þeim tilgangi að afstýra neyðarástandi. Það sé því hlutverk nefndarinnar  að meta hvort um sé að ræða neyð í skilningi laganna sem þurfi að afstýra í tilgreindu tilviki.

Líta málið alvarlegum augum

BHM segir, að þann 4. maí sl. hafi sýslumanni borist niðurstaða frá undanþágunefndinni þar sem honum hafi verið tilkynnt um að beiðnin hafi verið tekin til efnislegrar meðferðar.

„Niðurstaða nefndarinnar var sú að hafna beiðninni og var nefndin einróma í niðurstöðu sinni. Í þessu samhengi má benda á að í nefndinni sitja fulltrúar Stéttarfélags lögfræðinga og ríkisins og eru ákvarðanir nefndarinnar endalegar sbr. 21. gr. laga nr. 94/1986,“ segir í tilkynningu BHM.

„Þrátt fyrir framangreinda niðurstöðu gaf sýslumaður sjálfur út leyfisbréf fyrir báða framangreinda viðburði daginn eftir að honum var birt niðurstaða undanþágunefndarinnar. Í þessu samhengi er jafnframt bent á að í yfirlýsingu frá embætti sem birt er á heimasíðu sýslumannsembættanna (http://www.syslumenn.is/stodflokkar/forsidugreinar/tilkynning-vegna-verkfalla-hja-syslumanninum-a-hofudborgarsvaedinu) kemur fram að tekið sé við umsóknum um gisti- og veitingaleyfi en hvorki  séu ný leyfi gefin út né gildandi leyfi endurnýjuð.

Bandalag háskólamanna telur að sýslumaður hafi framkvæmt verkfallsbrot með því að veita framangreind leyfi þrátt fyrir endanlegan úrskurð undanþágunefndar og fyrirliggjandi framkvæmd og lítur málið alvarlegum augum,“ segir BHM ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert