Sérstakur eyddi mikilvægu símtali

Björk Þórarinsdóttir ásamt verjanda sínum.
Björk Þórarinsdóttir ásamt verjanda sínum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þegar Björk Þórarinsdóttir, ein ákærða í stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings, ætlaði að fá að hlýða á afrit af símtali sem hún átti við Bjarka Diego, yfirmann sinn í bankanum og ákærða í málinu, fékk hún að vita að búið væri að eyða símtalinu. Björk segir að í símtalinu hafi meðal annars komið fram upplýsingar sem hún telur hjálpa til við að sýna fram á aðkomu sína og vitneskju um það mál sem hún er ákærð fyrir.

Við yfirheyrslu yfir Björk í dómsal í dag flutti hún ávarp og gagnrýndi þá þessa framkvæmd, en saksóknari taldi sig ekki þurfa umrætt símtal við réttarhöldin og því var upptökunni eytt. Sagði saksóknari að það hafi verið gert samkvæmt lögum um meðferð sakamála, en þar kemur fram að eyða skuli símtölum jafn skjótt og þeirra er ekki þörf.

Í málinu er Björk ákærð fyrir aðild sína að lánveitingu til félagsins Holts, en eins og í máli Bjarka sendi hún tölvupóst með orðunum „samþykkt fyrir mitt leyti“ við fyrirspurn starfsmanns lánasýslu bankans um hvort bóka ætti beiðni um viðskipti, þótt ekki væri komin formleg staðfesting frá viðkomandi lánanefnd.

Taldi heimild komna frá lánanefnd stjórnar

Björk segir að þegar hún hafi sent póstinn hafi hún verið búin að ræða  við Bjarka, sem var hennar yfirmaður og ráðfært sig við hann um heimild fyrir lánveitingunni. Hafi hún talið eftir það samtal að komið væri samþykki frá lánanefnd stjórnar (æðstu lánanefnd bankans). Segist hún hafa leitt líkur að því að Bjarki hafi aflað heimilda fyrir samþykkinu, en ljóst sé að hún, eða þær lánanefndir sem hún sat í, hafi ekki haft heimildir til útlána af þessari stærðargráðu.

Yfirheyrslum yfir Björk lauk á fjórða tímanum í dag, en hún var síðust ákærðu til að vera yfirheyrð í málinu. Taka nú við ein og hálf vika þar sem vitni mæta fyrir dóminn og að lokum er áætlað að ein vika fari í málflutning.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert