Veðin voru bara til málamynda

Bjarki ásamt verjanda sínum í dómsal í morgun.
Bjarki ásamt verjanda sínum í dómsal í morgun. Eggert Jóhannesson

Veð sem lögð voru fram fyrir 16 til 17 milljarða lánveitingu Kaupþings til félagsins Holts vegna kaupa þess á bréfum í Kaupþingi voru til málamynda en verðmæti veðanna var um einn milljarður. Veðþekjan verður því aðeins 6% umfram lánsupphæðina. Þetta kom fram við yfirheyrslur yfir Bjarka Diego, fv. framkvæmdastjóra útlána hjá Kaupþingi í dag.

Greinir á við Hreiðar og Sigurð

Bjarki er ákærður vegna umboðssvika í útlánum til tveggja félaga Holts og Desulo. Ljóst er að Bjarka greinir á við Hreiðar Má Sigurðsson og Sigurð Einarsson, fv. forstjóra og stjórnarformanns bankans varðandi hvernig mál þróuðust við útlánin, en Bjarki segir að þegar viðkomandi lán hafi komið fyrir lánanefnd samstæðunnar sem hann sat í hafi í raun verið búið að mynda skuldbindingu og því hafi ekki verið hægt að hafna málinu.

Hreiðar greindi aftur á móti frá því að lánanefndin hefði alltaf getað hafnað málinu og bakkað út úr því án tjóns fyrir bankann.

Deilt um hvort samþykki hafi legið fyrir

Málið snýst um að Kaupþing seldi fyrrgreindum félögum hlutabréf í bankanum og er deilt um hvort lán vegna kaupanna hafi verið greidd út áður en samþykki viðkomandi lánanefnda hafi legið fyrir og hvernig samþykki hafi átt sér stað.

Meðal annars var félaginu Holti veitt um 12 milljarða lán í febrúar 2008. Eru bréfin seld 8. febrúar og á að gera upp viðskiptin 15. febrúar. Eigandi Holts, Skúli Þorvaldsson, var stór lántaki hjá Kaupþingi og því þurfti lánið að fara fyrir lánanefnd stjórnar (æðsta lánanefnd bankans) til samþykkis. Nefndin er aftur á móti ekki búin að funda fyrir þann tíma og ef ekki fæst lán er ljóst að stór yfirdráttarskuld myndist á vörslureikningi félagsins.

Var komið millifundasamþykki?

Deilt er um hvernig vilyrði fyrir fjármögnun var veitt, en Bjarki segir að daginn áður hafi lánanefnd samstæðunnar fundað og þar hafi hann og Hreiðar verið saman á fundinum. Segist hann gera ráð fyrir að hafa fengið vilyrði fyrir lánveitingunni þar og segist hann hafa litið á að samþykki frá Hreiðari hafi þýtt að hann hafi leitað svokallaðs millifundasamþykkis frá öðrum nefndarmönnum í æðstu lánanefndinni.

Lánið hafi því verið afgreitt, en Bjarki sendi meðal annars póst til undirmanns síns þar sem hann sagði „samþykkt“ eftir að hafa verið spurður hvort að bóka eigi beiðnina um viðskiptin. Hann hefur þó ítrekað tekið fram að hann hefði aldrei látið framkvæma beiðnina nema að í þessu tilfelli fór enginn peningur úr bankanum, heldur var lánið notað til að greiða eigin viðskiptum fyrir bréfin í bankanum. Hann hefði aldrei sagt samþykkt ef lánið hefði verið notað til að greiða út úr bankanum, nema með skriflegu samþykki æðstu nefndarinnar.

„Dýrt orð“

Sagði Bjarki í dómsalnum í dag að þetta hafi verið „dýrt orð“ sem hann lét falla þarna og að ef hann hefði grunað að þau myndu hafa svona mikil áhrif hefði hann ekki framkvæmt þetta.

Spilað var símtal Bjarka við undirmann sinn, Rúnar Magna Jónsson, frá 2010, en þar ræða þeir meðal annars útlán til félaganna tveggja. Segja þeir meðal annars að veðþekja þeirra hafi verið lítil og að heildarlán til Holts hafi verið orðin 16-17 milljarðar. Sagði Rúnar Magni að miðað við veð sem lögð voru fram í formi hlutabréfa í Skiptum, að upphæð 1 milljarður, hafi þau aðeins verið til málamiðla. Til viðbótar voru bréfin í Kaupþingi sem lánað var til að kaupa veðsett, en með bréfunum í Skiptum varð veðþekja lánsins rúmlega 100%. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert