Vorhreinsun í fullum gangi

Garðaúrgangur
Garðaúrgangur mbl.is/Golli

Vorhreinsun er í fullum gangi í Reykjavík en unnið er að því að sópa og þvo götur borgarinnar. Um næstu helgi eru borgarbúar hvattir til að taka til hendinni og safna rusli í ruslapoka.

Á vef Reykjavíkurborgar eru íbúar beðnir um að fylgjast með og færa bíla til fyrir sópunum svo þeir nái sem mestu. Gert er ráð fyrir að vorverkunum í borginni, sópun og þvotti ljúki um 13. júní samkvæmt upplýsingum frá þjónustumiðstöð borgarlandsins.

Allir tiltækir vélsópar og þvottabílar eru á fullu í borginni þessa dagana. Nú er verið að forsópa götur í miðborginni, gamla vesturbænum og efra Breiðholti.

Forsópun gatna er lokið í Háaleiti og Kringlu, Gröndum, Melum og Skjólum, Ártúnsholti, Árbæ, Bæjum, Bryggjuhverfi, Hálsum, Grafarvogi, Grafarholti  og Úlfarsárdal  og Kjalarnesi.
Forsópun er ekki hafin í Laugardalshverfi, Hlíðum, Holtum, Norðurmýri, Teigum og Túnum, Fossvogi, Gerðum, Háaleitisbraut, Múlum  og Skeifu.
Verið er að þvo götur í Grafarvogi og er þvotti lokið á Kjalarnesi.

Sópun gönguleiða er lokið í póstnúmerum á Gröndum, Melum og Skjólum, Grafarvogi og Grafarholti og Úlfarsárdal. Verið er að sópa gönguleiðir í Miðborginni, gamla Vesturbænum, Leitum og Kringlu, Ártúnsholti, Árbæ, Bæjum, Bryggjuhverfi, Hálsum, Höfðum, Selási  og Ásum.

Sópun gönguleiða er ekki hafin í póstnúmeri 104, Heimum, Laugarási, Sundum og Vogum. Ekki heldur í póstnúmeri 105, þ.e. Hlíðum, Holtum, Norðurmýri, Teigum og Túnum,  póstnúmeri 108, þ.e. Fossvogi, Gerðum, Háaleitisbraut, Múlum og Skeifunni, póstnúmeri 109, þ.e. Breiðholti, Bökkum, Sel og Stekkjum né póstnúmeri 111, þ.e. efra Breiðholti.

Hreinsunarteymi borgarinnar er því nokkurn veginn á áætlun í austurhluta borgarinnar, en nokkrum dögum á eftir í vesturhlutanum eins og er, þar sem forsóp í 101 átti að klárast í síðustu viku samkvæmt áætlun.

Reykjavíkurborg tekur þátt í evrópsku hreinsunardögunum 8. - 10. maí 2015. Markmiðið er að fegra ásýnd borgarinnar með því að taka til í hverfinu sínu og finna leiðir til að draga úr sóun með breyttum venjum.

„Næsta helgi er kjörin fyrir íbúa, húsfélög, íbúasamtök og heilu göturnar til að fegra umhverfi sitt fyrir sumarið með því að safna rusli í svarta plastpoka. Starfsfólk Reykjavíkurborgar mun svo fara um hverfin mánudaginn 11. maí og tína pokana upp. Hér er ekki átt við garðaúrgang því fólk fer sjálft með hann á endurvinnslustöðvar SORPU bs. eða endurnýtir í garðinum til dæmis með moltugerð.

Mjög mikilvægt er að taka til eftir veturinn og fyrir sumarið því annars er hætta á mengun ef plast og annað rusl fýkur út á haf eða festist í trjám og runnum. Evrópsku hreinsunardagarnir eru einnig ætlaðir til að vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi þess að ganga vel um umhverfi sitt og draga úr sóun,“ segir á vef Reykjavíkurborgar.

Endurvinnslustöðvar SORPU bs. eru opnar og auk þess mun starfsfólk hverfabækistöðva borgarinnar sækja svarta ruslapoka sem komið hefur verið fyrir á völdum stöðum t.d. eftir hreinsunarátak í hverfisgötum. Borgarbúar fara sjálfir með stærri hluti, húsgögn og timbur en almennt rusl í svörtum ruslapokum er sótt.

Borgarbúar eru hvattir til þess að hreinsa til um helgina.
Borgarbúar eru hvattir til þess að hreinsa til um helgina. mbl.is/Eyþór Árnason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert